EDDAN

2022

Þráinn Bertelsson

Þráinn Bertelsson hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2022 fyrir einstakt framlag til íslenskra kvikmynda og kvikmyndamenningar.

Þráinn fæddist 1944, rétt eins og lýðveldið Ísland. Reykjavík uppeldisáranna státaði af blómlegu bíólífi sem litaði fátæklegan hversdagsleika fyrir lítinn dreng sem var svo heppinn að eiga stóru systur sem tók hann iðulega með í bíó.

Fyrsta bíóferðin var til að sjá Fantasíu Disneys í Gamla bíói, en eftirminnilegasta kvikmynd bernskunnar hét Rakettumennirnir og ennþá veit hann ekki hvernig hún endar! Í miðri mynd skall nefnilega flóðbylgja á New York borg og drengurinn lagði hágrátandi og skelfingu lostinn á flótta til að komast út úr Austurbæjarbíói áður en vatnið flæddi af tjaldinu og yfir bíósalinn!

Slíkur var máttur kvikmyndanna og Þráinn vissi snemma að hann vildi verða

kvikmyndagerðarmaður þegar hann yrði stór.

Hann lauk prófi í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu frá Dramatiska Institutet í Svíþjóð 1977, en hafði áður droppað út úr lögfræði við Háskóla Íslands og síðan ekki fundið fjölina sína við aðra háskóla í öðrum löndum og var lukkulegur í starfi sem kennari norður í Eyjafirði, þar til hann sá auglýsingu frá Dramatiska á krumpaðri Morgunblaðssíðu á kennarastofunni.

Eftir stutt stopp hjá RÚV að námi loknu hellti hann sér í kvikmyndagerðina sem var aðalstarfið í 15 ár, sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri – og speglaði sitt hárbeitta, góðlátlega grín oftar en ekki í persónum og aðstæðum. Og hann var afkastamikill.

Barna- og fjölskyldumyndin Jón Oddur og Jón Bjarni eftir bókum Guðrúnar Helgadóttur var frumsýnd 1981. 1983 kynntist þjóðin fyrst félögunum Þór og Danna í gamanmyndinni Nýju lífi þegar við fylgdum þeim á vertíð í Vestmannaeyjum. Ári síðar hittum við þá við sveitastörf í Dalalífi og enduðum með þeim í löggæslustörfum 1985 þegar Löggulíf var frumsýnd. Það sama ár leit kvikmyndin Skammdegi dagsins ljós, 1989 frumsýndi Þráinn verðlaunamyndina Magnús og loks kvikmyndina Einkalíf árið 1995.

Starfsævin hefur borið hann víða og hann segist réttlæta staðfestuleysið með því að sá sem er freelance þurfi að höstla víða til að verða ekki gjaldþrota um hver mánaðamót.

Auk kvikmynda, stýrði hann tveimur áramótaskaupum og sjónvarpsþáttaröðinni Sigla himinfley, gerði tugi útvarpsþátta, útvarpsleikrit og eftir hann liggja hátt í tuttugu bækur. Skáldsögur, glæpasögur, barnasaga, ævisaga, sjálfsævisögur, þýðingar og nú síðast viðtalsbók við hund. Svo að nú vantar ekkert nema ljóðabók. Hann var blaðamaður og ritstjóri, formaður Rithöfundasambandsins, alþingismaður, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra og fleira mætti telja. Á flestum póstum beitti hann sér með einum eða öðrum hætti fyrir höfundaréttarmálum, en á þeim fékk hann áhuga strax í lögfræðinni, og hefur enn.

Hjartanlega til hamingju með Heiðursverðlaun Eddunnar 2022 Þráinn Bertelsson. Fyrir íslenska kvikmyndagerð og okkur samstarfsfólk þitt hér í salnum verður þú alltaf brautryðjandinn sem komst eins og ferskur vindur inn í fagið með þinn einstaka hæfileika til að segja sögur og upphefja mannlega þáttinn í kómískum og oft pínlegum aðstæðum. Þitt framlag til islenskrar kvikmyndagerðar er ómetanlegt.