EDDAN

2021

Reynir Oddsson

Reynir Oddsson hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2021 fyrir brautryðjandaframlag sitt til íslenskra kvikmynda og kvikmyndamenningar.

Rætur þess sem við köllum íslenska kvikmyndavorið liggja í gerjun sjötta og sjöunda áratugs síðustu aldar, þegar sjálfstæð, persónuleg og listræn sýn kvikmyndahöfunda var sett í öndvegi og kvikmyndin varð að listformi tuttugustu aldarinnar.

Reynir Oddsson var einna fyrstur til að koma með þessar nýju hugmyndir um kvikmyndina inní íslenskt samfélag.

Þegar hann kom heim til Íslands í upphafi sjöunda áratugarins, eftir nám í leiklist og kvikmyndagerð í Los Angeles og London, blasti við honum nær ónumið land. Hugur hans stóð til að gera leiknar kvikmyndir en svigrúm var þröngt. Það varð því hlutskipti hans að ryðja brautina, þrýsta á um breytingar og leita lausna.

Heimildamyndir hans á sjöunda áratuginum bera vitni sterkri tilfinningu fyrir kvikmyndamiðlinum. Fræðslumyndin Slys (1962) var meðal fyrstu íslensku kvikmyndanna sem hlutu verðlaun á alþjóðlegum vettvangi. Ljóðræna heimildamyndin Fjarst í eilífðar útsæ (1963), notar liti, form, áferð og mynstur til að kalla fram sterk hughrif. Tökumaður þeirrar myndar var hinn franski William Lubtchansky sem þarna var að hefja feril sinn, en hann átti síðar eftir að verða einn kunnasti tökumaður franskra kvikmynda og vann meðal annars með Agnès Varda, Jean-Luc Godard, Jacques Rivette og François Truffaut. Hernámsárin (1967), metnaðarfullt heimildaverk Reynis í tveimur hlutum, byggði meðal annars á myndskeiðum frá Íslandi stríðsáranna sem tekin voru á vegum breskra og bandaríska hersins. Og Flug 401 (1966) er einföld en fjörleg frásögn um nútímann og umheiminn, um það leyti sem Íslendingar stíga inní þotuöldina.

Reynir var staðráðinn í að gera leikna mynd og 1977 frumsýnir hann kvikmyndina Morðsögu. Þetta er samtímafrásögn um reykvíska úthverfafjölskyldu. Faðirinn er ráðríkur skapofsamaður sem girnist stjúpdóttur sína. Tilraunir dótturinnar til að losna undan ægivaldi föðurins leiða til skelfilegs uppgjörs.

Myndin vakti geysilega athygli meðal landsmanna og aðsókn varð gríðarleg. Ári eftir frumsýningu myndarinnar var Kvikmyndasjóður Íslands loksins stofnaður og þannig gat regluleg framleiðsla kvikmynda hafist. Morðsögu má því kalla einskonar vorboða íslenskrar kvikmyndagerðar.