EDDAN

2020

Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Pálmi Gestsson, Randver Þorláksson, Örn Árnason (Spaugstofan)

Spaugstofumenn, þeir Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Pálmi Gestsson, Randver Þorláksson og Örn Árnason hlutu heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2020 fyrir einstakt framlag sitt til íslensks skemmtiefnis og menningar í sjónvarpi.

Heiðursverðlaunahafarnir kitluðu hláturtaugar þjóðarinnar í rúm þrjátíu ár, oftast á eigin kostnað. Þessir listamenn rýndu í þjóðarsálina og spegluðu viðburði líðandi stundar á gamansaman hátt. Þeim var fátt heilagt, eða eins og einn af þeim komst að orði í viðtali: Hver sá sem hefur ekki húmor fyrir sjálfum sér er illa settur. Og sama máli gegnir þó að heil þjóð eigi í hlut. 

Þeir færðu okkur heim í stofu ógleymanlega karaktera eins og Ragnar Reykás, afdalabræðurna Eyjólf og Magnús, Kristján heiti ég Ólafsson, Arnarhólsfélagana Boga og Örvar, skautaparið Boris og Svetlönu, Geir og Grana og alla hina. Þeir gerðu upp hrunið á grátbroslegan hátt og túlkuðu helgihald páskanna svo seint gleymist. 

Uppruni Spaugstofunnar er oftast rakinn til Áramótaskaupsins 1985. Tveimur árum og einu áramótaskaupi síðar fór fyrsti þátturinn í loftið. Síðan var Spaugstofan bæði sýnd á RÚV og Stöð 2 (með hléum) í nærri þrjá áratugi. 

Fyrsti samningurinn hljóðaði upp á gerð fjögurra þátta, mögulega fimm ef viðtökur yrðu góðar. Þegar síðasti þáttur Spaugstofunnar fór í loftið árið 2016 var hann númer 472 í röðinni. 

Nokkru síðar birtist lesendakönnun í fjölmiðli með spurningunni “Viltu sjá Spaugstofuna á skjánum aftur?” Svarið var afgerandi. Níutíu prósent sögðu já. Þjóðin hafði einfaldlega ekki fengið nóg.