EDDAN

2019

Egill Eðvarðsson

Egill Eðvarðsson (fæddur 1947) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2019 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskra kvikmynda og sjónvarps.

Egill er þjóðkunnur fyrir áratuga starf sitt sem leikstjóri, handritshöfundur, klippari, leikmyndahönnuður og framleiðandi, en umfram allt dagskrárgerðarmaður og upptökustjóri – til viðbótar við að hafa skapað sér nafn sem myndlistarmaður, tónlistarmaður og skáld.

Egill var í fararbroddi þeirrar kynslóðar sem byggði upp dagskrárgerð fyrir sjónvarp á Íslandi, sem einn þriggja fyrstu upptökustjóra Sjónvarpsins (RÚV). Það var árið 1971 sem þessi fjölhæfi listamaður, þá nýútskrifaður myndlistarkennari, rakst á auglýsingu frá Sjónvarpinu þar sem óskað var eftir starfskrafti sem hvoru tveggja hefði tónlistar- og myndlistarmenntun. Hann sótti um og sá fyrir sér að sinna starfinu í tvö til þrjú ár, en halda síðan áfram frekara myndlistarnámi. Síðan leið nær hálf öld og íslensk sjónvarps- og kvikmyndagerð er svo miklu ríkari fyrir vikið. 

Þau verk sem Egill hefur unnið fyrir sjónvarp skipta mörgum hundruðum. Sem upptökustjóri hélt hann meðal annars utan um sjónvarpsmyndir á borð við Blóðrautt sólarlag (1977), Sögu af sjónum (1974), Silfurtunglið (1978) og fyrstu íslensku leiknu framhaldsþáttaröðina Undir sama þaki (1977) þar sem hann var einnig meðal handritshöfunda. 

Egill var maðurinn á bak við feykivinsælt skemmtiefni eins og þættina Á tali með Hemma Gunn sem og sambærilegar þáttaraðir með Gísla Marteini Baldurssyni, Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur. Hann hannaði og stýrði framan af vinsælum frétta- og mannlífsþáttum á borð við Dagsljós og síðar Kastljósinu. Þá vann hann mörg af vinsælustu Áramótaskaupum fyrri ára og stýrði Söngvakeppni Sjónvarpsins frá upphafi og lengi áfram. Egill ruddi brautina í beinum útsendingum frá leikhúsum borgarinnar þar sem þjóðin gat horft á leikrit á borð við Þrek og tár og Engla alheimsins

Eftir Egil liggja tvær bíómyndir. Húsið trúnaðarmál (1983), sem er hrollvekjandi spennumynd með dulrænu ívafi og Agnes (1995) þar sem segir af örlögum Agnesar Magnúsdóttur, sem síðust allra var tekin af lífi á Íslandi árið 1830. Hann leikstýrði einnig mörgum verkum fyrir sjónvarp. Má þar nefna sjónvarpsmyndirnar Djáknann (1988), Steinbarn (1989) og Dómsdag (1998) sem allar eru í fullri lengd, ásamt barna- og fjölskyldumyndunum Músinni Mörtu (1998), Önnu afastelpu (2004) og Danskeppninni (2005). Er þá fátt eitt talið af því sem eftir Egil liggur.

Framlag Egils Eðvarðssonar til íslenskrar sjónvarps- og kvikmyndamenningar er einstaklega fjölskrúðugt og sannarlega ómetanlegt.