EDDAN

2013

Kristín Jóhannesdóttir

Heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2013 hlaut Kristín Jóhannesdóttir (fædd 1948) fyrir einstakt framlag sitt til kvikmyndagerðar sem og gríðarmikið og óeigingjarnt starf við uppbyggingu íslenska kvikmyndageirans. 

Kristín nam kvikmyndafræði og kvikmyndaleikstjórn í Frakklandi á áttunda áratug síðustu aldar og er í hópi þeirrar kynslóðar sem ýtti reglulegri framleiðslu íslenskra kvikmynda úr vör við upphaf níunda áratugsins. 

Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Á hjara veraldar, kom út 1983. Önnur kvikmynd hennar, Svo á jörðu sem á himni, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1993. Þriðja bíómyndin, Alma, kom út 2021. Kristín hefur einnig leikstýrt nokkrum sjónvarpsmyndum, þar á meðal Líf til einhvers (1985) og Glerbrot (1988). Myndir hennar hafa verið sýndar víða erlendis og unnið til fjölda verðlauna á fjölmörgum kvikmyndahátíðum.

Kristín hefur starfað sem leikstjóri við Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið og leikstýrt þar fjölda verka en einnig hefur hún leikstýrt hjá Stúdentaleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu. Kristín leikstýrði einnig óperunni Tunglskinseyjunni sem frumflutt var í Peking árið 1997 og var síðar sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins. Hún hefur einnig leikstýrt útvarpsleikritum. 

Kristín hefur ekki síður látið til sín taka í félagsstarfi, menntamálum og réttindabaráttu fagfélaga kvikmyndageirans. Hún var fyrsti formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra, einn stofnenda félags Norrænna kvikmyndaleikstjóra og Kvikmyndaklúbbs Íslands. Hún sat í stjórn Listahátíðar og Kvennakvikmyndahátíðar, í stjórn Kvikmyndasjóðs og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og var meðal stofnenda WIFT á Íslandi (Women in Film and Television). Kristín var einnig skólameistari Kvikmyndaskóla Íslands um skeið.

Kristín er allt í senn, margverðlaunaður fagmaður, óþreitandi baráttujaxl og mikil fyrirmynd og lærimeistari.