EDDAN

2014

Sigríður Margrét Vigfúsdóttir

Sigríður Margrét Vigfúsdóttir hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2014 fyrir yfir 20 ára þrotlaust starf í þágu íslenskra kvikmynda á erlendri grundu. 

Sigríður, eða Sarma eins og hún er oftast kölluð, er Siglfirðingur og lærði stjórnmálafræði, heimspeki, kvikmyndaleikstjórn og klippingu í Frakklandi. Hún er jafnframt konan á bakvið tjöldin. Hún var í áraraðir potturinn og pannan í styrktarumsóknum íslenskra kvikmynda til stærstu kvikmyndasjóða Evrópu. Frá 1992 stýrði hún Íslandsskrifstofu Media áætlunarinnar en það er evrópskt átaksverkefni til að efla framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Þá sat hún um langa hríð í bæði stjórn og framkvæmdastjórn evrópska kvikmyndasjóðsins, Eurimages. 

Það er að stórum hluta henni að þakka að íslenskar kvikmyndir náðu á rúmlega tveggja áratuga skeiði þeim ótrúlega árangri að fá úthlutað tveimur milljörðum króna.

Sarma hefur undanfarin ár starfað sem ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.