EDDAN

2015

Ómar Ragnarsson

Ómar Ragnarsson (fæddur 1940) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2015 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar dagskrárgerðar.

Sjaldan hefur orðatiltækið ,,þennan mann er óþarfi að kynna’’ átt eins vel við og um Ómar Ragnarsson. Hann hefur á löngum ferli starfað sem fréttamaður, skemmtikraftur, rithöfundur, flugmaður, lagasmiður og baráttumaður fyrir verndun náttúru og menningar. Á árunum 1975 til 1984 varð hann fjórum sinnum Íslandsmeistari í rallakstri ásamt Jóni bróður sínum. Ómar var frumkvöðull þegar kom að skemmtanahaldi en hann var með fyrstu skemmtikröftum sem sömdu allt sitt efni sjálfir.

Ómar hóf störf hjá Sjónvarpinu (RÚV) 1969 og vann þar sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður til 1988. Hann starfaði síðan sem fréttamaður fyrir Stöð 2 á árunum 1988-1995, en hóf síðan aftur störf hjá RÚV 1995. Síðar stofnaði hann sitt eigið framleiðslufyrirtæki ásamt Helgu Jóhannsdóttur eiginkonu sinni, þar sem lögð var áhersla á heimildamyndir um náttúrulíf og umhverfismál. 

Þættir Ómars, Stiklur, voru sýndir á RÚV á seinni hluta áttunda áratugar 20. aldar og fram á miðjan níunda. Þar ferðaðist hann um landið og heimsótti áhugavert fólk. Í þáttunum miðlar hann bæði af eigin þekkingu og þekkingu þeirra sem landið yrkja, og gerir það á afar skemmtilegan og fræðandi hátt sem grípur alla sem á horfa. Ómar gerði nýja Stikluþætti með dóttur sinni Láru á öðrum áratug 21. aldar.

Óhætt er að fullyrða að fáir þekki land sitt og þjóð betur en Ómar sem hefur um áratugi ferðast um Ísland vítt og breitt og komið í hvert einasta horn landsins og afkima.