EDDAN

2012

Vilhjálmur Knudsen

Vil­hjálm­ur Knudsen hlaut heiður­sverðlaun Edd­unn­ar fyr­ir einstakt fram­lag sitt til kvik­mynda­gerðar og ómet­an­lega söfn­un og varðveislu heim­ild­a­mynda um ís­lenska nátt­úru og lifnaðar­hætti. 

Saga Vilhjálms Knudsen (1944-2020) er afar sérstakur kafli í sögu íslenskra kvikmynda og nær yfir rúmlega sjötíu ára tímabil. 1947 hóf faðir hans Ósvaldur Knudsen að kvikmynda Heklugosið. Úr varð kvikmyndin Eldur í Heklu en hún var ekki frumsýnd fyrr en 1972. Ósvaldur gerði síðan fjölmargar heimildamyndir þar sem viðfangsefnið var fyrst og fremst íslensk náttúra en einnig mannlíf. Þetta tengist Vilhjálmi með beinum hætti, ekki aðeins byrjaði hann á unglingsárum að aðstoða föður sinn heldur tók síðar að sér að halda áfram starfi hans og sýna myndir hans (og sínar eigin) í vinnustofu þeirra feðga við Hellusund í miðborg Reykjavíkur.

Vilhjálmur var jafnframt í hópi fyrstu kynslóðar íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem sóttu nám í faginu, en hann nam við London Film School frá 1964.

Á áttunda áratug síðustu aldar var Vilhjálmur einn fárra sem höfðu yfir úrvali tækja og tóla til kvikmyndagerðar að ráða. Sá sem á græjur verður gjarnan ákveðin miðstöð, leiðirnar liggja þangað. Vinnustofa Vilhjálms, sem þá var í Brautarholti í Reykjavík, var einmitt slíkt torg um skeið. Þangað komu kvikmyndagerðarmenn til að fá hjá honum tæki eða ráðleggingar og rákust um leið á kollegana og skiptust á fréttum úr baráttunni yfir kaffibolla. 

Viðfangsefni mynda hans (og föður hans) voru fyrst og fremst eilífðin sjálf, hringrás náttúrunnar og hin stöðuga sköpun hennar. Eldgosamyndir; Vestmannaeyjar, Kröflueldar, Hekla og svo framvegis. Áherslan var ekki endilega á að klára myndirnar heldur halda áfram gerð þeirra, bæta stöðugt við. Hann var einhvernveginn alltaf að, í samhljómi við viðfangsefnið. Það brast á með jarðeldum og Vilhjálmur var rokinn þangað undireins. Svo kom hann aftur og aftur. Síðan sýndi hann það sem tekið hafði verið upp í Hellusundsbíói – eða Red Rock Cinema eins og það kallaðist fyrir túrista, sem streymdu þangað til að horfa á íslensk undur. Framlag Vilhjálms til þess verkefnis að segja söguna um Ísland í lifandi myndum var því stórt og mikið.