EDDAN

2001

Kristbjörg Kjeld og Gunnar Eyjólfsson

Leikurunum Kristbjörgu Kjeld og Gunnari Eyjólfssyni voru veitt heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2001 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskra bíómynda og sjónvarpsverka. 

Bæði eru í hópi merkustu leikara Íslendinga, fyrr og síðar. Leiklistarferill þeirra nær frá því um og fyrir miðja tuttugustu öldina og lágu leiðir þeirra snemma saman, fyrst í Þjóðleikhúsinu, en síðan í kvikmyndinni 79 af stöðinni (1962) þar sem þau fóru með aðalhlutverkin. Árið 2010 léku þau einnig saman í kvikmyndinni Mamma Gógó.

Kristbjörg Kjeld er fædd 1935. Hlutverk hennar í kvikmyndum og sjónvarpsverkum eru alls um 40 á rúmlega sextíu ára tímabili (til og með 2023). Meðal helstu verka hennar á sviði kvikmynda og sjónvarps eru 79 af stöðinni (1962), Í skugga hrafnsins (1988), Glerbrot (1988), Fíaskó (2000), Mávahlátur (2001), Hafið (2002), Kaldaljós (2004), Mamma Gógó (2010) og Á ferð með mömmu (2022). 

Kristbjörg var fastráðin leikkona í Þjóðleikhúsinu frá 1957 en kom einnig fram í öðrum leikhúsum á ferlinum. Hún kemur enn reglulega fram í kvikmyndum, sjónvarpi og á sviði.

Gunnar Eyjólfsson (1926-2016) réðist til Þjóðleikhússins 1960, eftir leiklistarnám í RADA og nokkra dvöl erlendis. Hann starfaði þar og víðar allt til 2011. Gunnar lék í yfir 20 kvikmyndum og sjónvarpsverkum á rúmlega sextíu ára tímabili. Fyrsta hlutverk hans var aðalhlutverkið í fyrstu íslensku langmyndinni, Milli fjalls og fjöru (1949). Önnur eftirminnileg hlutverk hans eru meðal annars í 79 af stöðinni, Atómstöðinni (1984), Hafinu (2002) þar sem hann hlaut Edduverðlaunin, Heiðinni (2008) og Mömmu Gógó (2010).