Search
Close this search box.

EDDAN

2002

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon sjónvarpsmaður og rithöfundur fékk heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2002 fyrir mikið og farsælt starf sitt við dagskrárgerð fyrir sjónvarp í tæp fjörtíu ár.

Íslendingurinn og heimsborgarinn Magnús Magnússon var einn af þungavigtarmönnum í bresku sjónvarpi tuttugustu aldarinnar. Almenningur þar í landi minnist hans helst sem umsjónarmanns hins vinsæla spurningaþáttar Mastermind á BBC, sem hann stjórnaði í 25 ár, eða frá 1972 til 1997. Setninguna “Ég er byrjaður svo ég klára” (“I’ve started so I’ll finish”) kannast margir við á Bretlandseyjum, en hún varð nokkurskonar slagorð þáttarins sem einkenndist af spennuþrungnu andrúmslofti yfirheyrsluherbergisins.

Uppvöxtur, menntun og fjölskylda

Magnús fæddist í Reykjavík árið 1929 og lést í Skotlandi 2007. Hann var sonur hjónanna Sigursteins Magnússonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. 1930 var faðir hans ráðinn sem framkvæmdastjóri Samvinnuhreyfingarinnar í Evrópu með aðsetur í Edinborg. Þangað fluttist fjölskyldan þegar Magnús var níu mánaða gamall og Skotland varð heimili hans síðan.

Að lokinni skólagöngu í Edinborg fékk hann styrk til að stunda nám í enskri tungu og bókmenntum við Jesus College í Oxford. Hann útskrifaðist þaðan 1951 og lagði síðan stund á framhaldsnám í íslenskum fornbókmenntum í Kaupmannahöfn.

1954 giftist hann bresku blaðakonunni Mamie Baird og eignuðust þau fimm börn. Sonurinn Jon og dæturnar Topsy, Margaret og Sally hafa öll starfað í sjónvarpi í Bretlandi. Soninn Siggy misstu þau í bílslysi þegar hann var þrettán ára að aldri.

Starfsferill

Að námi loknu hóf Magnús störf við blaðamennsku og gegndi þeim til 1964 þegar hann var ráðinn sem einn af kynnum fréttaþáttarins Tonight hjá BBC.

Af öðrum þekktum sjónvarpsþáttum sem Magnús stýrði fyrir BBC má nefna Króníku eða Chronicle, vikulega þætti um sögu og fornleifafræði, sem hann var upphafsmaður að árið 1966 ásamt samstarfsfólki og hafði umsjón með allt til 1980. Það sama ár birtist hann á BBC með yfirgripsmikila þáttaröð um sögu víkinganna, Vikings! Árinu áður hafði sama sjónvarpsstöð sýnt þáttaröð eftir hann sem bar heitið Goðsagnir í lifanda lífi eða Living Legends.

Fleiri þáttaraðir um sögu og fornleifafræði gerði Magnús og má þar meðal annars nefna seríu um fornleifar í landinu helga, BC: Archeology in the Bible Lands árið 1977 og þáttaröð um sögu og forneifar í Kínaveldi sem gerðir voru skömmu eftir menningarbyltinguna 1973.

Jafnhliða ferli sínum sem sjónvarpsmaður var Magnús afkastamikill rithöfundur. Bækur eftir hann fylla annan tuginn, flestar á sviði sögu og fornleifafræði auk þess sem hann þýddi fjölda íslenskra bóka yfir á ensku, þar á meðal nokkrar Íslendingasagnanna og verk Halldórs Laxness. Magnús var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við sjö skoska og enska háskóla. Þá hlaut hann fjölmargar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. fálkaorðuna íslensku og heiðursriddaraorðu hins breska heimsveldis (Knight of the British Empire) árið 1989, en það er æðsti heiður sem erlendum ríkisborgara getur hlotnast á breskri grundu.

Magnús sinnti ennfremur náttúruverndar- og umhverfismálum í Skotlandi um áratugaskeið og sat í stjórnum og ráðum fjölda stofnana og félagasamtaka á því sviði.

Fræðaþulurinn

Lífsstarf Magnúsar snerist um að miðla flóknum fróðleik af ýmsum toga með aðgengilegum hætti til hins breiða fjölda í gegnum sjónvarpið, gluggann að veröldinni. Hann lýsti sjálfum sér sem sögumanni frekar en fræðimanni. Hann líkti einnig hlutverki sínu við farveg þar sem afrakstur fræðastarfs getur runnið greiða leið til þorra manna. Hann var réttnefndur nútíma fræðaþulur, fulltrúi þeirrar hugmyndar að þekkingin geti og skuli vera almenningseign, öllum til heilla. Honum tókst að nota sjónvarpsmiðilinn sem farveg þessarar sannfæringar sinnar með einstaklega vel heppnuðum hætti og lagði þannig sitt af mörkum til að gera sjónvarpið að gefandi og ábyrgum hluta af samtímanum.