EDDAN

2000

Þorgeir Þorgeirson

Þorgeir Þorgeirson (1933-2003) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2000 fyrir framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar.

Þorgeir nam kvikmyndagerð í París og Prag á seinni hluta sjötta áratugar tuttugustu aldar og er því meðal fyrstu Íslendinganna til að stunda nám af því tagi. Það er óhætt að segja að sýn hans á kvikmyndaformið hafi verið um margt öðruvísi en þeirra samlanda sem á undan fóru sem og flestra samtíðarmanna. Hann lagði áherslu á heimildamyndina sem aðferð til að rannsaka umhverfið með myndavélinni áður en ráðist væri í gerð leikinna mynda.

Fyrsta mynd Þorgeirs var heimildamyndin Hitaveituævintýri (1963) um uppbyggingu hitaveitu í Reykjavík. Chris Menges var tökumaður myndarinnar, en hann átti síðar eftir að verða einn af kunnustu kvikmyndatökumönnum Breta og vann tvívegis Óskarsverðlaun (fyrir The Killing Fields (1984) og The Mission (1986)). 

Í kjölfarið komu þrjár aðrar heimildamyndir, Meðferð gúmmíbjörgunarbáta (1964), Grænlandsflug (1966) og Að byggja (1967). 

Kunnasta verk Þorgeirs er stutt heimildamynd, Maður og verksmiðja (1967). Þetta er myndræn frásögn um andrúmsloft, takt og tíma. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Edinborg 1968 og uppskar þar lof sjálfs John Grierson sem kallaður hefur verið faðir heimildamyndanna og skilgreindi þær sem skapandi túlkun veruleikans.

Á árunum 1968-1970 rak Þorgeir einnig kvikmyndaklúbbinn Litla bíó sem sýndi margar framsæknar og sögulega áhugaverðar kvikmyndir. Starfsemin var framan af á Hverfisgötu en í upphafi árs 1969 var starfsemi Litla bíós flutt í Norræna húsið þar sem það var starfrækt til 1970, þegar Háskólabíó hóf vikulegar sýningar á listrænum kvikmyndum og Þorgeir taldi sig því hafa náð markmiði sínu.

Síðasta kvikmynd Þorgeirs ​​er Róður (1972), stutt lýsing á túr línubáts. Lúðvík Jósepsson þáverandi sjávarútvegsráðherra studdi verkefnið og var hugmyndin að gera fleiri myndir um sjávarútveginn. En eftir að hafa séð Róður gagnrýndi Lúðvík Þorgeir fyrir að draga ekki upp þá hefðbundnu sparifatamynd af Íslendingum sem var rauður þráður í þeim landkynningarmyndum sem stjórnvöld höfðu stutt til þessa. Hann krafðist þess að eingöngu yrði myndað það nýjasta og flottasta en Þorgeir tók það ekki í mál, hætti kvikmyndagerð og sneri sér að ritstörfum og þýðingum. Eftir Þorgeir liggja einnig margskonar skrif um kvikmyndir í gegnum tíðina.