EDDAN

1999

Indriði G. Þorsteinsson

Indriði G. Þorsteinsson (1926-2000) var fyrsti handhafi heiðursverðlauna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Hann hlaut verðlaunin fyrir brautryðjendaframlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Indriði var rithöfundur, fréttamaður og ritstjóri. Hann tilheyrir hópi brautryðjenda í íslenskri kvikmyndagerð. 

Kvikmynd eftir skáldsögu hans 79 af stöðinni var frumsýnd 1962 í leikstjórn Erik Balling, eins helsta leikstjóra Dana á þeim tíma. Verkið má telja fyrirboða íslenska kvikmyndavorsins svokallaða, tæpum tuttugu árum síðar. Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld fóru með aðalhlutverk. Kvikmyndafélagið Edda Film, undir forystu Guðlaugs Rósinkranz, hafði forgöngu um gerð myndarinnar en framleiðslu annaðist Nordisk Film. 

Á seinni hluta níunda áratugarins var Indriði meðal stofnenda Ísfilm ásamt Ágústi Guðmundssyni leikstjóra og handritshöfundi og Jóni Hermannssyni framleiðanda. Fyrsta kvikmynd félagsins, Land og synir, var einnig byggð á samnefndri skáldsögu Indriða og kom út 1980. Indriði kom einnig að gerð Útlagans (1981) sem Ágúst Guðmundsson leikstýrði. 

Kvikmyndirnar sem byggðar eru á bókum Indriða lýsa sögulegum kjarna íslensku þjóðarinnar á 20. öld, tíma mikilla umbreytinga og átaka milli nútíðar og fortíðar.