Search
Close this search box.

EDDAN

2007

Árni Páll Jóhannsson

Árni Páll Jóhannsson (1950-2020) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2007 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskra kvikmynda.  

Árni Páll var myndlistarmaður og leikmyndahönnuður og sem slíkur var hann einn af lykilmönnum í íslenskri kvikmyndagerð allt frá kvikmyndavorstímanum.

Árni Páll nam ljósmyndun hjá Guðmundi Erlendssyni á öndverðum áttunda áratuginum og tók meistarapróf í greininni en hugur hans stóð til myndlistar. Hann hreifst af konseptlistinni sem þá var áberandi og gegnum kynni sín af Jóni Gunnari Árnasyni, myndhöggvara og einum af meðlimum SÚM-hópsins, komst hann í kynni við ýmsa af hinum SÚM-listamönnunum: Sigurð Guðmundsson, Hrein Friðfinnsson, Kristján Guðmundsson og fleiri. 1975 hóf Árni Páll kennslu við Myndlista- og handíðaskólann þar sem hann starfaði í meira en áratug og sama ár hélt hann sína fyrstu einkasýningu, í húsnæði hópsins við Vatnsstíg. 

Árni Páll tók þátt í starfi Gallerýs Suðurgötu 7 á áttunda áratuginum og þar kynntist hann Friðrik Þór Friðrikssyni, sem þá var að hefja kvikmyndaferil sinn. Hann tók þátt í Rokk í Reykjavík (1982) sem ljósmyndari og tökumaður og sá einnig um leikmynd í tveimur myndum Þráins Bertelssonar, Löggulíf (1985, ásamt Halli Helgasyni) og Skammdegi (1985). Hann sá um leikmynd og brellur í fyrstu bíómynd Friðriks Þórs, Skytturnar (1987) og gerði eftir það leikmyndir í kvikmyndum Friðriks, allt frá Börnum náttúrunnar (1991) til Mömmu Gógó (2010). Stærsta verkefni hans af myndum Friðriks Þórs var hönnun og smíði braggahverfisins fyrir Djöflaeyjuna (1996). 

Árni Páll gerði einnig leikmynd fyrir fjölda annarra kvikmynda, þeirra á meðal voru Karlakórinn Hekla (1992), Myrkrahöfðinginn (1999), 101 Reykjavík (2000), No Such Thing (2001), Bjólfskviða (2005), Köld slóð (2006) og Duggholufólkið (2007). Alls kom hann að leikmyndahönnun yfir 20 kvikmynda. Um leið skapaði hann fjölmörgum öðrum vettvang til að rækta hæfileika sína á þessu sviði og því er framlag hans til íslenskrar kvikmyndagerðar afar stórt.

Árni Páll hlaut Edduverðlaunin fyrir leikmynd sína í Köld slóð eftir Björn B. Björnsson 2007. Þá hlaut hann aftur Edduna 2010 fyrir leikmyndina í Mömmu Gógó Friðriks Þórs. Árið 2017 var kynntur til leiks nýr verðlaunagripur Eddunnar sem Árni Páll hannaði.