EDDAN

2006

Magnús Scheving

Magnús Scheving (fæddur 1964) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2006 fyrir frumkvöðlastarf sitt í sjónvarpsþáttagerð.

Magnús var maðurinn á bak við Latabæ, eitt stærsta sjónvarpsþáttaverkefni sem Íslendingar hafa ráðist í. 

Forsagan er sú að 1995 gaf Magnús út bókina Áfram Latibær þar sem sagt var frá íþróttaálfi sem gaf fólkinu í Latabæ góð ráð varðandi hreyfingu og mataræði. Leikrit eftir bókinni varð afar vinsælt og Latibær varð kunnur um land allt. 

Árið 2004 urðu vatnaskil þegar bandaríska sjónvarpsstöðin Nickelodeon (Nick Jr.) hóf sýningar á sjónvarpsþáttunum Latabæ (LazyTown). 

Magnús fór með hlutverk íþróttaálfsins, sem kallaður var Sportacus á enskri tungu. Þættirnir voru sýndir í yfir 100 löndum og þýddir á fjölda tungumála. Alls voru gerðir rúmlega hundrað þættir sem birtust frá 2004 til 2014. Vinnsla þeirra fór fram í fullkomnu myndveri sem komið var upp í Garðabæ. 

Árið 2011 keypti Turner Broadcasting, eigandi Nickelodeon, LazyTown Entertainment, fyrirtæki Magnúsar. Magnús hélt áfram að leika íþróttaálfinn allt til 2014 og lét þá einnig af störfum sem forstjóri LazyTown Entertainment.