EDDAN

2008

Friðrik Þór Friðriksson

Friðrik Þór Friðriksson (fæddur 1954) fékk heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2008 fyrir framúrskarandi framlag sitt til íslenskra kvikmynda, kvikmyndaframleiðslu og starfa að hagsmunamálum kvikmyndagerðarmanna.

Vegamyndaformið hefur verið Friðriki Þór Friðrikssyni hugleikið. Margar mynda hans eru þeirrar gerðar og markast einnig af brotakenndum stemmningslýsingum og andrúmslofti þar sem skilin milli ímyndunar og veruleika eru á reiki. Yfirskilvitlegir atburðir koma yfirleitt eins og sjálfsagðir inní söguheiminn og augað beinist jafnan að fólki sem dvelur í samfélagsjaðrinum. 

Friðrik Þór skipar einstakan sess í íslenskri kvikmyndasögu. Að öllum öðrum ólöstuðum hefur hann átt hvað drýgstan þátt í því að koma íslenskri kvikmyndagerð á hið alþjóðlega kort. Myndir hans hafa verið margverðlaunaðar um allan heim og reglulega halda alþjóðlegar kvikmyndahátíðir yfirlitssýningar á verkum hans. 

Hann byrjaði að gera kvikmyndir á menntaskólaárunum og rak einnig á þeim tíma Fjalaköttinn, kvikmyndaklúbb framhaldsskólanna, þar sem hann sýndi sjálfum sér og öðrum mörg af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Í framhaldi af því starfaði hann um tíma sem kvikmyndagagnrýnandi og gaf út tímarit um kvikmyndir. 

Á fyrri hluta níunda áratugsins gerði hann nokkrar tilrauna- og heimildamyndir sem vöktu töluverða athygli. Rokk í Reykjavík frá 1982, er sjálfsagt þeirra kunnust, en þar er lýst á hráan og beinskeyttan hátt því andrúmslofti sem ríkti í borginni á pönktímanum. Nokkru áður sýndi hann í Háskólabíói stutta mynd þar sem helgasta véi íslenskrar menningar, sjálfri Brennu-Njálssögu, var flett síðu fyrir síðu uns kom að sjálfri brennunni á Bergþórshvoli. Þá var kveikt í bókinni. Tiltækinu var misvel tekið! 

Kúrekar norðursins er önnur eftirminnileg heimildamynd frá þessum tíma, elskulegt og ærslafullt portrett af súrrealískri kántríhátíð á Skagaströnd. 1987 frumsýndi hann fyrstu leiknu bíómynd sína, Skytturnar, harmsögulega vegamynd, kryddaða kolsvörtum húmor, um tvo vegvillta menn í leit að samastað. Skytturnar var meðal fyrstu íslensku kvikmyndanna til að vekja athygli á erlendum vettvangi. 

Fjórum árum síðar birtist hin ástsæla Börn náttúrunnar, önnur vegamynd um tvö gamalmenni sem hníga til síns uppruna vestur á fjörðum. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna og er einhver mest verðlaunaða mynd íslenskrar kvikmyndasögu. 

1994 sendi hann svo frá sér Bíódaga, þar sem hann byggir á bernskuminningum sínum og lýsir þannig tilurð hins nútíma sagnaþuls, kvikmyndaleikstjórans. Ári síðar kemur Á köldum klaka, þar sem japanskur ferðalangur lendir í gamansömum menningarárekstrum við íslenska drauga – þessa heims og annars. 

Djöflaeyjan, kraftmikill blús eftir skáldsögum Einars Kárasonar um braggafólkið, slær hressilega í gegn 1996 og Englar alheimsins, eftir skáldsögu Einars Más Guðmundssonar um mann sem hverfur inní sjálfan sig af völdum geðrænna kvilla, verður jafnvel enn vinsælli árið 2000. Báðar þessar myndir hittu á einhverja sérstaka taug hjá þjóðinni. 

Þá gerði hann vegamyndina Fálka 2002, þar sem hinn góðkunni bandaríski leikari Keith Carradine fór með aðalhlutverkið í sögu um mann sem snýr á fornar slóðir til að binda endi á líf sitt en fær óvænt tækifæri upp í hendurnar. 2004 gerði hann svo Næsland, um tvö þroskaheft ungmenni sem leita hamingjunnar á ólíklegustu stöðum. Mamma Gógó kom síðan 2010 en þar fjallar hann um samband kvikmyndaleikstjóra við móður sína. 

Friðrik Þór hefur jafnframt verið einn öflugasti kvikmyndaframleiðandi landsins og sem slíkur komið að gerð tuga kvikmynda, bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur hann lengi verið í fararbroddi hagsmunabaráttu kvikmyndagerðarmanna og gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi.