Dagsetning

Aðildargjöld að ÍKSA

Á undanförnum árum hefur meðlimum í ÍKSA fjölgað ár frá ári, eftir því sem fleiri verk hafa verið sendi inn til Edduverðlaunanna. Á sama tíma hefur fjöldi meðlima hætt í faginu án þess að senda okkur skilaboð um slíkt. Svo ekki sé nú talað um breytingar á heimilisföngum, netföngum og öðru sem þarf til að halda sambandi við meðlimi akademíunnar.

Á fundi hagsmunaaðila um Edduna sem var í Bíó Paradís í nóvember 2011 var meðal annars rætt um að taka upp hógvær aðildargjöld að akademíunni til að standa undir auknum kostnaði hennar við að uppfæra kjörskrár, kostnað við rafrænar kosningar um Edduverðlaunin og um framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna, auk hækkunar við verðlaunin sjálf. Sú staðreynd blasir einnig við okkur að það er innan við helmingur skráðra akademíumeðlima sem kjósa í þeim rafrænu kosningum sem haldnar eru. Stjórn ÍKSA ákvað í framhaldi að taka upp aðildargjöld.

Í ársbyrjun 2012 eru sendir út greiðsluseðlar fyrir 2.000 krónur sem eru með gjalddaga þann 3. febrúar og eindaga 31.12.2012 þannig að allir núverandi meðlimir ÍKSA hafa árið til að ákveða sig með áframhaldandi þátttöku. Eftir 31.12. 2012 munur þeir sem ekki hafa greitt þurfa að sækja um aðild að nýju. Þeir akademíumeðlimir sem hafa greitt aðildargjöld fyrir hádegi þann 3. febrúar 2012 verða kjörgengir í valinu um Edduverðlaunin 2012, í samræmi við 20 daga reglu um kjörgengi sem var komin á. Undanþegnir aðildargjaldinu verða þeir meðlimir Akademíunnar sem eru handhafar heiðursverðlauna Eddunnar í gegnum árin og þeir félagar sem eru 67 ára og eldri á árinu 2012. Með því að taka upp aðildargjöld er verið að skjóta sterkari stoðum undir ÍKSA, auk þess sem kærkomið tækifæri myndast til að taka til á meðlimalistum akademíunnar.

Hér á síðunni er ný kjörskrá ÍKSA frá 1. janúar 2012. Ef þitt nafn er ekki á listanum, skaltu athuga hvort að það sé á aðildarlista ÍKSA þar sem eru öll skráð nöfn meðlima þann 31.12.2011. Sé svo og þú hefur ekki fengið greiðsluseðil í heimabankann þinn, þá skaltu athuga lista yfir þá aðila sem okkur vantar netföng og/eða kennitölur fyrir. Sé nafnið þitt þar, þá sendu okkur tölvupóst á eddan@eddan.is og við komum greiðsluseðli í heimabankann þinn svo fljótt sem verða má. Sértu hinsvegar á engum af þessum listum, þá ráðleggjum við þér að sækja um aðild að Akademíunni með því að sækja þetta skjal, fylla það út og senda á info@kvikmyndamiðstöd.is. Stjórn ÍKSA mun fjalla um allar umsóknir sem berast á milli 20. janúar og 1. febrúar á fundi þann dag. Umsóknir sem berast 1. febrúar eða síðar, verða afgreiddar eftir 1. mars.

Þar sem kennitölur á listum akademíunnar eru frekar rýrar, væri það okkur akkur að meðlimir myndu senda staðfestingar á kennitölu, heimilisföngum og breytingar á tölvupóstföngum, ef einhverjar eru á netfangið eddan@eddan.is

AÐRAR FRÉTTIR