Hrafn Gunnlaugsson (fæddur 1948) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir einstakt framlag sitt til kvikmyndagerðar og innlendrar dagskrárgerðar.
Hrafn nam leikhúsfræði og kvikmyndagerð við Stokkhólmsháskóla og Dramatiska Institutet á fyrri helmingi áttunda áratugsins. Að því loknu vann hann nokkurn fjölda sjónvarpsverka og má þar nefna Sögu af sjónum, Blóðrautt sólarlag, Silfurtunglið, Vandarhögg og gamanþáttaröðina Undir sama þaki. Frá þessum tíma er einnig stuttmyndin Lilja, sem byggð er á smásögu eftir Halldór Laxness.
Fyrsta bíómynd Hrafns er Óðal feðranna frá árinu 1980. Tveimur árum síðar sýnir hann kvikmyndina Okkar á milli í hita og þunga dagsins og 1984 kemur svo Hrafninn flýgur, fyrsta myndin í þríleik hans um sögualdartímann. Fyrir hana fékk hann meðal annars verðlaun sænsku kvikmyndastofnunarinnar, Gullbjölluna, sem leikstjóri ársins. Önnur myndin í fyrrnefndum þríleik, Í skugga hrafnsins, er sýnd 1988 og 1991 birtist sú þriðja, Hvíti víkingurinn, sem jafnframt var gerð sem sjónvarpsþáttaröð í fjórum hlutum.
Sjötta bíómynd Hrafns er Hin helgu vé frá árinu 1993 og 1999 sýnir hann okkur túlkun sína á Píslarsögu Jóns Magnússonar í Myrkrahöfðingjanum, sem einnig var gerð sem þáttaröð í fjórum hlutum.
Inn á milli bíómyndanna gerði Hrafn ýmis verk fyrir sjónvarp. Má þar nefna Hver er… (1982), Böðulinn og skækjuna (Bödeln och skökan) sem gerð var fyrir SVT, sænska sjónvarpið 1986, Allt gott (1992), Þegar það gerist (1998) og Opinberun Hannesar (2004), sem einnig var sýnd í kvikmyndahúsum.
Eftir Hrafn liggja einnig nokkrar heimildamyndir, þar á meðal Reykjavík, Reykjavík (1986), Reykjavík í öðru ljósi (2000) og Ísland í öðru ljósi (2003).
Hrafn gegndi frá 1985 til 1989 stöðu dagskrárstjóra innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarpsins, auk þess sem hann var framkvæmdastjóri stofnunarinnar um skeið. Hann varð snemma þjóðþekktur fyrir þáttagerð í útvarpi, en hann sá um útvarpsþáttinn Útvarp Matthildi á fyrri hluta áttunda áratugarins ásamt félögum sínum, Davíð Oddssyni og Þórarni Eldjárn. Hann var jafnframt atkvæðamikill í íslensku menningarlífi, meðal annars sem framkvæmdastjóri og formaður Listahátíðar í Reykjavík.
Hrafn hefur veitt okkur margbrotna sýn á nútímann, fortíðina og gerjunina í íslensku mannlífi og sögu. Hann hefur ögrað og verið sá kvikmyndagerðarmaður sem strax á unga aldri taldi að allt væri hægt. Að hægt væri að fara upp alla bratta og sigra þá. Hann hefur veitt komandi kynslóðum leiðsögn um að gefast aldrei upp. Hann er brautryðjandi og frumkvöðull í íslenskri kvikmynda- og dagskrárgerð.