Search
Close this search box.

Dagsetning

Vonarstræti framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Vonarstræti sem framlag Íslands til Óskarsverðlauna á næsta ári. Vonarstræti mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmynd á erlendu tungumáli.

Vonarstræti hlaut meirihluta atkvæða akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði Bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2013 til 30. september 2014.

Vonarstræti fjallar um óvægna fortíðardrauga, þöggun, sársauka og syndaaflausn. Áhorfendur fá að fylgjast með þremur ólíkum persónum fóta sig í íslensku samfélagi á árunum rétt fyrir hrun og hvernig örlög þeirra fléttast saman á áhrifaríkan hátt.

Handritið skrifuðu þeir Birgir Örn Steinarsson og Baldvin Z, sem leikstýrir einnig myndinni. Framleiðendur eru þeir Júlíusi Kemp og Ingvari Þórðarsyni hjá Kvikmyndafélagi Íslands.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.

AÐRAR FRÉTTIR