Dagsetning

Umsóknir fyrir Edduverðlaunin 2009

Frestur til innsendinga  kvikmyndaverka til Edduverðlaunanna rennur út 1. desember 2009. Gjaldgeng eru kvikmyndaverk sem frumsýnd eru á tímabilinu 1. nóvember 2008 til 31. desember 2009. Verðlaunin verða afhent í janúar 2010.

Verkunum skal skilað til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að Túngötu 14 í Reykjavík ásamt fylgiblaði og kvittun fyrir greiðslu innsendingargjalds.

Innsendingargjald er kr. 15.000 auk vsk fyrir hvert verk. Sé verkið einnig sent til tilnefninga til fagverðlauna bætast við kr. 2.000 fyrir hverja tilnefningu.

Innsendingu verks skal fylgja útfyllt eyðublað sem er að finna hér.

Innsending verka getur verið með eftirfarandi hætti:

1. Verkið sé skilað á 20 DVD diskum.

2. Verkið sé sent í stafrænu formi til ÍKSA sem sér um að setja það á netþjón. Gjald fyrir þessa þjónustu er kr. 3.500 auk vsk.

3. Verki sé skilað á myndbandi og sett á netþjón af ÍKSA. Kostnaður er kr. 7.500 auk vsk.

Sérstök athygli er vakin á nýjum verðlaunaflokki; BARNAEFNI ÁRSINS.
Starfsreglur íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar varðandi kosningu og veitingu Eddu-verðlaunanna, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna eru eftirfarandi:

1. TILNEFNDIR FLOKKAR:

1.1.  Tilnefndar myndir (svo og verk einstaklinga) skulu hafa verið frumsýndar opinberlega í kvikmyndahúsi á tímabilinu 1. nóvember 2008 til 31. desember 2009 og/eða á íslenskri sjónvarpsstöð á sama tímabili.

1.2. Verk sem til greina koma skulu vera að meirihluta framleidd af íslenskum fyrirtækjum, eða uppfylla skilyrði þeirra samframleiðslusamninga sem Ísland er aðili að. Þó er heimilt að tilnefna þá Íslendinga sem taka þátt í myndum annarra þjóða til Edduverðlauna. Erlenda ríkisborgara, sem taka þátt í íslenskum myndum skv. skilgreiningunni að ofan, er heimilt að tilnefna til Edduverðlauna

1.3.  Eigi síðar en 26. september ár hvert skal stjórn ÍKSA auglýsa eftir myndum sem til greina koma í neðantalda flokka. Skal skilafrestur vera tilgreindur í auglýsingunni sem og dagsetning þar sem tilnefningar verða gerðar opinberar.

1.4. Stjórn ÍKSA skipar valnefnd eða valnefndir til að velja þau verk og þá einstaklinga sem tilnefndir eru í hverjum flokki. Skal valið taka mið af listrænum árangri og faglegum vinnubrögðum. Fjöldi tilnefninga í hverjum flokki er ákveðinn af stjórn ÍKSA.

1.5.  Hafi framleiðandi ekki frumsýnt mynd sína fyrir lok auglýsts skilafrests skv. lið 1.3. en hyggst gera það fyrir auglýstan dag tilnefninga, skal framleiðandinn gefa viðkomandi valnefnd kost á að sjá myndina sem allra fyrst og eigi síðar en degi fyrir auglýstan dag tilnefninga. Verði framleiðandinn ekki við þessu en myndin engu að síður sýnd fyrir auglýstan dag tilnefninga verður myndin ekki með í þeim hóp mynda sem valið er úr.

1.6. Flokkar:

1. BÍÓMYND ÁRSINS:
Kvikmynd í fullri lengd, sýnd í kvikmyndahúsi.

2. LEIKIÐ SJÓNVARPSEFNI ÁRSINS:
Sjónvarpsmyndir, þáttaraðir eða stakir þættir.

3. FRÉTTA- EÐA VIÐTALSÞÁTTUR ÁRSINS
Í sjónvarpi.

4. SKEMMTIÞÁTTUR ÁRSINS
í sjónvarpi.

5. MENNINGAR EÐA LÍFSTÍLSÞÁTTUR ÁRSINS
í sjónvarpi.

6. HEIMILDAMYND ÁRSINS:
Hvort sem er í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi.

7. STUTTMYND ÁRSINS:
Allt að 60 mínútur. Sýnd opinberlega a.m.k. einu sinni.

8. BARNAEFNI ÁRSINS
Hvort sem er í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi

9. LEIKSTJÓRI ÁRSINS:
Leikstjóri bíómyndar, sjónvarpsmyndar, stuttmyndar eða stjórnandi heimildarmyndar, -raðar.

10. HANDRIT ÁRSINS:
Handrit bíómyndar, heimildarmyndar, -raðar, sjónvarpsverks eða
stuttmyndar.

11. SJÓNVARPSMAÐUR ÁRSINS

12. LEIKKONA ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

13. LEIKARI ÁRSINS Í AÐALHLUTVERKI
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

14. LEIKKONA ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

15. LEIKARI ÁRSINS Í AUKAHLUTVERKI
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

16. KVIKMYNDATAKA ÁRSINS
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

17. KLIPPING ÁRSINS
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

18. HLJÓÐ ÁRSINS
Hljóðtaka eða hljóðvinnsla í kvikmynd eða sjónvarpi.

19. TÓNLIST ÁRSINS
Í kvikmynd eða sjónvarpsverki

20.LEIKMYND ÁRSINS
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

21. BÚNINGAR ÁRSINS
Í kvikmynd eða sjónvarpi.

22. GERFI ÁRSINS
Förðun, hár eða gerfi í kvikmynd eða sjónvarpi.

23. HEIÐURSVERÐLAUN:
Valin samkvæmt ákvörðun stjórnar ÍKSA hverju sinni.

2. KJÖRSKRÁ

2.1. Á kjörskrá eru meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Rétt að aðild að Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni hafa þeir er sannanlega hafa unnið að tveimur kvikmynda- og/eða sjónvarpsverkefnum* í einum eftirfarandi flokka:
Aðstoðarleikstjóri Brellumeistari Framkvæmdastjóri
Upptökustjóri Framleiðandi Gripill Handritshöfundur Hljóðhönnuður Klippari Kvikmyndatökumaður Leikari í aðal- og/eða aukahlutverki Leikmyndahönnuður Leikstjóri Ljósahönnuður Tónlistarhöfundur Hljóðmaður Leikmunavörður Aðstoðartökumaður Sviðsmaður Búningahönnuður Förðunarmeistari Tæknistjóri Myndblandari Skrifta Grafískur hönnuður
*Með kvikmynda- eða sjónvarpsverkefnum er átt við kvikmyndir sem hafa verið sýndar opinberlega í kvikmyndahúsi í a.m.k. sjö daga samfleytt og sjónvarpsefni sem birst hefur á viðurkenndri sjónvarpsstöð og fellur undir þá flokka sem tilnefnt er í.

2.2. Kjörskrá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar skal birta opinberlega eigi síðar en 30 dögum fyrir kosningu. Skal kjörskráin og liggja frammi á skrifstofu Kvikmyndasjóðs Íslands og á heimasíðu ÍKSA á netinu (eða þeirri vefsíðu sem ÍKSA gerir samning við). Kærur, er varða kjörskrá ef einhverjar eru, skulu berast ÍKSA ásamt skriflegum rökstuðningi. Hægt er að kæra sig inná kjörskrá fram til kl. 17, degi fyrir lok kjörfundar. Stjórn ÍKSA skal fjalla um kærur sem kunna að berast.

Ennfremur hefur almenningur rétt til þáttöku í kosningunni og skal honum verða gert kleift að taka þátt með því að eiga þess kost að greiða atkvæði á netinu. Við útreikning úrslita er einungis tekið tillit til greiddra atkvæða í hverjum flokki. Nánari útfærsla þess er í höndum stjórnar.

3. KOSNING

3.1. Stjórn ÍKSA skipar sérstaka kjörnefnd til að hafa yfirumsjón með kosningu og sjá um talningu atkvæða. Engin meðlimur kjörnefndar má vera tilnefndur til Eddu-verðlaunanna né hafa komið á nokkurn hátt að gerð þeirra verka sem kosið er um.

Kosning skal fara fram á eftirfarandi hátt:
Kosning skal vera rafræn og fara fram með þeim hætti að þeir sem eru á kjörskrá ÍKSA fá sendan kjörseðil í tölvupósti. Skal þess gætt að hver meðlimur geti aðeins kosið einu sinni. Kjörfundur fyrir þá sem ekki hafa aðgang að rafrænum pósti skal fara fram í a.m.k. einn dag, eftir nánari ákvörðun stjórnar. Þar gefst þeim kost á að kjósa sem ekki hafa fengið rafrænan kjörseðil. Hafi einhver fengið sendan kjörseðil er honum óheimilt að kjósa utan kjörfundar.

Kærufrestur vegna niðurstöðu kosninga er ein vika frá opinberun niðurstaðna. Kærur skulu berast stjórn ÍKSA. Eftir það er kjörgögnum eytt en niðurstöðutölur geymdar í vörslu ÍKSA. Heimilt er að gefa almenningi kost á að greiða atkvæði um tilnefningar. Skal vægi almennings vera 20% gegn 80% vægi kjörskrár Akademíunnar.

3.2. Auk þess að kjósa um ofangreinda flokka stendur Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían fyrir kosningu á framlagi Íslands til Óskarsverðlaunanna úr öllum framleiddum bíómyndum samkvæmt reglum The Academy of Motion Picture Arts and Sciences Í Bandaríkjunum. Sú atkvæðagreiðsla skal fara fram samkvæmt ákvörðun stjórnar ÍKSA.

4. ÚRSLIT
4.1. Úrslit atkvæðagreiðslunnar skulu kunngjörð á verðlaunahátíðinni sem halda skal eigi síðar en tveim vikum eftir lok kjördags.

5. ÁGREININGUR
5.1. Rísi upp ágreiningur um framkvæmd eða fyrirkomulag kosninganna skal stjórn ÍKSA hafa úrskurðarvald í öllum deilumálum.

Samþykkt í fagráði ÍKSA, 18. nóvember 2009,

Björn Brynjúlfur Björnsson
Friðrik Þór Friðriksson
Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Jóhanna Jóhannsdóttir
Kristjana Thors Brynjólfsdóttir
Laufey Guðjónsdóttir
Skarphéðinn Guðmundsson

AÐRAR FRÉTTIR