Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökustjóri hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2024 fyrir áratuga framúrskarandi framlag sitt til íslenskrar kvikmyndalistar.
Sigurður Sverrir fæddist 1945 og einstakur ferill hans í kvikmyndagerð nær yfir næstum sextíu ár. Á unglingsárunum, þegar hann var að velta því fyrir sér mögulegu lífsstarfi, fannst honum valið standa milli þess að verða bóndi, arkitekt eða kvikmyndagerðarmaður.
Þessar þrjár greinar eru auðvitað náskyldar þegar vel er að gáð, en sú síðastnefnda var sérlega galin hugmynd á Íslandi við upphaf sjöunda áratugs síðustu aldar. Íslenskri kvikmyndagerð til mikillar gæfu ákvað hann þó að feta þá leið.
Sigurður Sverrir nam kvikmyndagerð með sérstaka áherslu á kvikmyndatöku í London School of Film Technique og útskrifaðist þaðan 1969. Í kjölfarið réðist hann til Sjónvarpsins og starfaði þar um árabil sem klippari, myndatökumaður og upptökustjóri. Samhliða þessu sá hann ógrynni af kvikmyndum sem kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins og þurfti að kryfja þær inn að merg. Allt þetta átti eftir að skila sér þegar honum var falið að annast kvikmyndatöku á Landi og sonum sumarið 1979, þegar íslenska kvikmyndavorið var að hefjast. Sigurður Sverrir varð síðan í fremstu röð íslenskra kvikmyndatökumanna, en alls myndaði hann fimmtán íslenskar bíómyndir á um þrjátíu árum. Meðal þeirra eru Punktur punktur komma strik, Útlaginn, Gullsandur, Eins og skepnan deyr, Sódóma Reykjavík, Tár úr steini, Benjamín dúfa, Íkingút og Kaldaljós, en fyrir hana hlaut hann Edduverðlaunin árið 2004.
Sigurður Sverrir vann einnig í samstarfi við félaga sína Erlend Sveinsson og Þórarinn Guðnason, nokkrar stórar heimildamyndir sem fjölluðu á einn eða annan hátt um sögu sjávarútvegs á Íslandi. Má þar nefna stórvirkið Verstöðin Ísland, Silfur hafsins og Íslands þúsund ár. Þá eru ótaldar margar aðrar heimildamyndir, sjónvarpsmyndir og stuttmyndir af margvíslegu tagi.
Kvikmyndagerð snýst um samstarf margra og Sigurður Sverrir Pálsson var og er mikils metinn af kollegum sínum sem gjarnan unnu með honum aftur og aftur, vegna hans einstaka auga, listræna innsæis og yfirvegunar.