Search
Close this search box.

Dagsetning

Opið fyrir innsendingar til síðustu Edduverðlaunanna með óbreyttu sniði

Opnað hefur verið fyrir innsendingar á kvikmynda- og sjónvarpsverkum fyrir Edduna 2023. Gjaldgeng eru verk sem frumsýnd voru opinberlega á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2022. 

Innsendingarferlið er að fullu rafrænt á innsendingarvef Eddunnar. Framleiðslufyrirtæki fylla þar út upplýsingar um viðeigandi verk, greiða innsendingargjald og hlaða verkum upp fyrir Netvarp Eddunnar.

Gjald fyrir innsent verk í aðalflokka Eddunnar er 25.000 kr. og innsending í fagverðlaunaflokk kostar 5.000 kr. Sérstakt átak til að hvetja til innsendingar á stuttmyndum felur í sér að gjald fyrir stuttmyndaflokkinn hefur verið lækkað niður í 10.000 kr (öll verð eru án vsk).

Frestur til að senda inn verk rennur út á miðnætti þriðjudaginn 24. janúar, 2023 og strax í kjölfarið hefja valnefndir Eddunnar störf.

Rýnivinna Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hófst á síðasta ári. Hún fól meðal annars í sér skoðanakönnun meðal meðlima ÍKSA og rýnifund akademíunnar í Hörpu. Mikil þátttaka í skoðanakönnuninni og árvekni þátttakenda á rýnifundi í Hörpu gefur góða tilfinningu fyrir sýn og hugmyndum akademíunnar um Edduna. Stjórn þakkar öllum þeim sem tóku þátt og hvetur akademíumeðlimi til að fylgjast áfram með rýnivinnunni.

Innan akademíunnar er skýr vilji meirihluta félagsmanna til að skipta Eddunni upp í tvenn verðlaun, annars vegar kvikmyndaverðlaun og hins vegar sjónvarpsverðlaun. Annar verkþáttur rýnivinnu mun felast í útfærslu á þessari stóru breytingu. Eddan 2023 verður því síðasta Eddan í óbreyttu formi og eru því spennandi tímar framundan. 

Sjá nánar um reglur Eddunnar hér. 


LINKUR FYRIR INNSENDINGAR: http://innsending.eddan.is/

AÐRAR FRÉTTIR