Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían kaus kvikmyndina Mamma Gógó sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2011 í rafrænni kosningu sem fram fór 21. – 24. september. Myndin fékk 43% atkvæða akademíumeðlima. Kosið var á milli átta mynda sem frumsýndar voru á tímabilinu 1. október 2009 – 30. september 2010.
Leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur er Friðrik Þór Friðriksson. Friðrik er einn helsti kvikmyndagerðarmaður þjóðarinnar. Hann hefur skrifað handrit og leikstýrt fjölda íslenskra kvikmynda, auk þess sem hann hefur verið öflugur framleiðandi íslenskra kvikmynda. Hann hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 1992 fyrir myndina Börn náttúrunnar.
Mamma Gógó segir frá Gógó sem er fullorðin kona sem hefur greinst með Alzheimer sjúkdóminn. Hún lendir í ýmsum vandræðum sprottnum af veikindunum. Sonur hennar, ungur kvikmyndagerðarmaður, er í fjárhagskröggum vegna framleiðslu kvikmyndar sinnar, Barna náttúrunnar. Með aðalhlutverk fara Kristbjörg Kjeld, Hilmir Snær Guðnason, Gunnar Eyjólfsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Inga María Valdimarsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Kristbjörg Kjeld hlaut Edduna fyrir leik sinn í myndinni.
Bandaríska kvikmyndaakademían hóf að veita Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli árið 1947. Hverju landi er boðið að senda inn eina kvikmynd sem framleidd hefur verið á tilteknu tólf mánaða tímabili. Innsendar kvikmyndir fá sérstaka sýningu þar sem nefnd gefur hverri mynd einkunn. Þær fimm myndir sem fá hæstu einkunn eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í flokknum besta kvikmyndin á erlendu tungumáli.
Fyrsta framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna var kvikmyndin Land og synir árið 1981. Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu, ein í fullri lengd og ein stuttmynd. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson var tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin árið 2006.