Kosning um framlag Íslands til Óskasverðlaunanna á næsta ári er hafin. Kosið er á milli fjögurra íslenskra kvikmynda sem uppfylla skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar og eru frumsýndar á bilinu 1. október 2013 til 30. september 2014.
Þessar myndir eru í stafrófsröð:
Harry & Heimir: Morð eru til alls fyrst
Leikstjóri: Bragi Þór Hinriksson
Handrit: Sigurður Sigurjónsson | Örn Árnason | Karl Ágúst Úlfsson
Framleiðandi: Skúli Malmquist – Zik Zak Kvikmyndir
Málmhaus
Leikstjóri: Ragnar Bragason
Handrit: Ragnar Bragason
Framleiðendur: Árni Fillippusson og Davíð Óskar Ólafsson – Mystery Ísland ehf.
París norðursins
Leikstjóri: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
Handrit: Huldar Breiðfjörð
Framleiðendur: Sindri Páll Kjartansson og Thor Sigurjónsson – Kjartansson og Zik Zak Kvikmyndir
Vonarstræti
Leikstjóri: Baldvin Zophoníasson
Handrit: Birgir Örn Steinarsson og Baldvin Zophoníasson
Framleiðendur: Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson – Kvikmyndafélag Íslands ehf.
Það eru meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) sem kjósa rafrænt á milli myndanna fjögurra og stendur kosningin yfir í rúma viku eða til mánudagsins 22. september. Alls eru tæplega 500 akademíumeðlimir á kjörskrá en rétt til aðildar að ÍKSA hafa allir þeir sem hafa unnið að lágmarki tveimur kvikmynda- og/eða sjónvarpsverkefnum.
Bandaríska kvikmyndaakademían hóf að veita Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli árið 1947. Hverju landi er boðið að senda inn eina kvikmynd sem framleidd hefur verið á tilteknu tólf mánaða tímabili og annast Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían valið fyrir Íslands hönd. Innsendar kvikmyndir fá sérstaka sýningu þar sem nefnd gefur hverri mynd einkunn. Þær fimm myndir sem fá hæstu einkunn eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í flokknum besta kvikmyndin á erlendu tungumáli.
Ísland sendi sína fyrstu kvikmynd í forval Óskarsverðlaunanna árið 1981 og var það kvikmyndin Land og synir. Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna, ein kvikmynd í fullri lengd og ein stuttmynd. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin. Árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.