Alls voru 100 kvikmynda- og sjónvarpsverk send inn til Eddunnar ár en innsendingarfrestur rann út á miðnætti á mánudag. Innsend verk í ár eru litlu færri en í fyrra þegar þau voru 104, sem þá var met.
Í fyrra voru alls 58 innsend sjónvarpsverk en í ár hefur þeim fjölgað í 63. Þar af eru þrjú leikin verk fyrir sjónvarp, 12 frétta- eða viðtalsþættir, 19 skemmtiþættir og 29 menningar- og lífsstílsþættir.
Alls voru 7 kvikmyndir sendar inn í Edduna í ár, 7 stuttmyndir og 17 heimildamyndir, samanborið við 8 kvikmyndir, 13 stuttmyndir og 14 heimildamyndir í fyrra.
Átta verk falla í flokkinn barnaefni í ár sem er fjölgun úr fjórum verkum í fyrra. Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fagnar þessari fjölgun því reynt hefur verið að gera veg barnaefnis sem mestan, meðal annars með því að leyfa innsendingu á verkum bæði í flokkinn barnaefni sem og einn annan flokk að auki.