Guðný Halldórsdóttir (fædd 1954) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2018 fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar.
Allar greinar þurfa sína frumkvöðla og fyrirmyndir og Guðný er ekki síst þetta tvennt. Hún er frumkvöðull í því að skapa kvenpersónur sem hafa lifað lengi í minnum, fyrst og fremst með leiftrandi og beittan húmor að vopni.
Kvikmyndaleikstjórinn Guðný Halldórsdóttir hefur verið áhrifavaldur í íslenskri kvikmyndagerð með sínum öfluga sköpunarkrafti, hæfileikum og húmor. Hún nam kvikmyndagerð við London International Film School á áttunda áratug tuttugustu aldar og hefur á rúmlega 40 ára ferli unnið við bíómyndir, heimildamyndir, barnaefni og sjónvarpsþáttagerð sem handritshöfundur, leikstjóri, aðstoðarleikstjóri og framleiðandi.
Guðný framleiddi og skrifaði handritið að kvikmyndum Skilaboð til Söndru (1983) og Stellu í orlofi (1986). Hún skrifaði einnig handrit þáttaraðarinnar Þættir úr félagsheimili (1982), sem og hluta handrits kvikmyndarinnar Ævintýri á norðurslóðum (1992). Þá var hún einn framleiðenda kvikmyndarinnar Gullsandur (1985).
Kristnihald undir jökli (1989) var frumraun Guðnýjar sem leikstjóra. Myndin var gerð eftir samnefndri sögu föður hennar, nóbelsskáldsins Halldórs Laxness. Guðný skrifaði einnig handrit og leikstýrði kvikmyndunum Karlakórinn Hekla (1992) og Ungfrúin góða og húsið (1999), sem hlaut fern Edduverðlaun 1999, þar á meðal sem kvikmynd ársins. Guðný skrifaði og leikstýrði einnig Stellu í framboði (2002) og Veðramótum (2007). Þá leikstýrði hún fjölskyldumyndinni Engin jól án Bassa (1998) sem sýnd var á RÚV.
Guðný og eiginmaður hennar Halldór Þorgeirsson hafa rekið framleiðslufyrirtækið Umba allt frá 1983. Ásamt því að framleiða eigin bíómyndir hafa þau einnig gert úrval heimildamynda, þar á meðal Ragnar í Smára (2005), Íslenskt forystufé (2009) og HKL (2011). Undanfarin ár hefur Guðný starfað sem handritaráðgjafi fyrir Kvikmyndamiðstöð Íslands.