Search
Close this search box.

Dagsetning

Árni Páll Jóhannsson

Nýverið voru Edduverðlaunin afhent verðlaunahöfum í sjónvarpsdagskrá á RÚV.

Í þættinum var minnst þeirra einstaklinga úr kvikmynda- og sjónvarpsgreininni sem létust á árunum 2019 – 2020.

Við kveðjum þetta góða fólk með virðingu.

Rík ástæða er fyrir stjórn ÍKSA að minnast sérstaklega Árna Páls Jóhannssonar, enda lifir minning hans ekki bara í ódauðlegum listakverkum og kvikmyndum, heldur í verðlaunagripnum sem hann hannaði fyrir ÍKSA árið 2016.

Ferill Árna Páls er þess eðlis að það lá beint við að fara þess á leit við hann að spreyta sig á að hanna gripinn, en sammælst hafði verið í stjórn um að gerður yrði nýr verðlaunagripur.

Árni Páll hlaut heiðursverðlaun ÍKSA árið 2007 og hafði þá þegar hannað leikmyndir í um langt skeið, en alls kom hann að hönnun yfir 20 kvikmynda á ferli sínum. Þar að auki var hann virtur myndlistarmaður með langan feril að baki sem slíkur.

Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían minnist Árna Páls Jóhannssonar með hlýju og þakklæti. Hann var framúrskarandi listamaður, glettinn, stálheiðarlegur og æðrulaus – eins og sýndi sig í áralangri baráttu hans við sjúkdóminn sem að lokum hafði yfirhöndina. Hann lét það ástand ekki stöðva sig og sökkti sér í að hanna Eddustyttuna sem við erum svo stolt af.

Árni Páll Jóhannsson fæddist 13. október 1950 og lést 23. júlí 2020.

Aðstandendum vottum við innilega samúð.

Hér fylgir textinn sem Árni Páll setti saman og sendi okkur þegar hann kynnti gripinn til leiks. Þessi orð eru mikilvægur hluti listaverksins sem Edduverðlaunin eru:


Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég var beðinn um að gera tillögu að Edduverðaunastyttu var að fara á netið og skoða verðlaunastyttur heimsins.

Eftir dágóða stund við tölvuna sá ég að það voru flestar styttur frænkur óskarsverðlaunastyttunar eða gler eitthvað, ef þær voru ættaðar einhverstaðar austan að.
Flestar höfðu ekki nokkra tengingu við kvikmyndagerð eða sjónvarp. Þá varð að leggja hausinn í bleyti og reyna að gera styttu sem tengdist faginu.
Sumir fá margar Eddur á þessu kvöldi, þá þarf hún að vera eitthvað  sem að gott er að halda á í kippum og staflast vel þegar heim er komið. Svo er það tengingin. Kvikmyndir hreyfast oftast eins og sjónvarp gerir stundum líka, þar eru ljós, skuggar og myndir af einhverju sem segja eitthvað í einhverju formati sjaldnast í portretformati.
Á styttan að hreyfast, á að vera ljós í henni, hljóð, myndir,
og hvaða format á að vera á henni ?
Á hún að standa á borði eða hanga uppi á vegg ?
Hvað hef ég komið mér í ? Það er ekki hægt að þjóna öllum. Hverjum á að þjóna ? Svarið kom að lokum. Öllum nema  búningum og leikmynd.
Svo var stytta gerð aftur og aftur, loks kom hún.
Hún speglaði sjálfa sig. Gott fyrir styttur.
Það var hægt að láta hana standa á borði lóðrétta eða lárétta,
Hanga vegg lóðrétta og lárétta hún þjónaði öllum, líka
búningum og leikmynd. Hún er sett saman með fallegu handverki eins og frá góðu handverks mönnum fagsinns,
ekki steypt eins og fjöldaframleiðsla nútímans. Hún þjónar meira að segja framleiðendum og leikstjórum,
Það er hægt að berja með henni.
Hún þjónar sminkum, það er spegill í henni, Hún þjónar aðal- og aukaleikurum, þeir sjá sjálfa sig í henni, það er hægt að rúlla henni eftir trakki  framm og til baka það er fyrir tökumanninn, umhverfið speglast í henni það er fyrir þáttagerðafólk, búninga og leikmynd, það skröltir hóflega í henni það er fyrir hljóðið, það er hægt að glamra á hana tónlist, hún varpar ljósi betur en nokkur reflector, gripparar geta notað hana sem hallamál
En það besta við hana er að allir handhafar hennar sem áhorfendur hennar sjá sjálfa sig í henni.
Árni Páll Jóhannsson

AÐRAR FRÉTTIR