Vilhjálmur Hjálmarsson (1914-2014) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2005 fyrir framlag sitt til kvikmyndamála á Íslandi.
“Það er skemmtilegur paradox að ráðherrann sem ýtti Kvikmyndasjóði úr vör hafði aldrei í bíó komið – að því er hann sagði mér sjálfur. Þetta var öðlingurinn Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði. Ekki skiptir máli hvort þetta er bókstaflega satt en Vilhjálmur er laundrjúgur húmoristi og vís til að skrökva ýmsu uppá sig til að krydda frásögnina. Hann þekkti auðvitað líka hina frægu setningu Jónasar frá Hriflu, þegar hann var að skrökva sem mest: “Þetta hefði getað verið satt”. Ég legg því til að litið verði á þessa sögu sem heilagan sannleik í íslenskri kvikmyndasögu.”
Þannig lýsir Knútur Hallsson, fyrrum formaður stjórnar Kvikmyndasjóðs og heiðursverðlaunahafi ÍKSA 2003, þætti stjórnmálamannsins Vilhjálms Hjálmarssonar í stofnun Kvikmyndasjóðs í viðtali við Land & syni það sama ár.
Knútur lýsir því ennfremur í viðtalinu þegar þeir Vilhjálmur skunduðu á fund Matthísar Mathiesen, sem þá var fjármálaráðherra, til að reyna að kría útúr honum fjárveitingu sem mætti verða tannfé hins nýja sjóðs.
“Matthías tók glaðhlakkalega á móti okkur og ég býst við að við Vilhjálmur höfum notið þess að Hafnfirðingnum hafi runnið blóðið til skyldunnar, en á sokkabandsárum minnar kynslóðar og Matthíasar var Hafnarfjörður einskonar Mekka kvikmyndanna á íslandi þegar þar voru sýndar allar helstu myndir frá gullaldartímabili evrópskrar kvikmyndagerðar. Þá var oft fullt í Hafnarfjarðarstrætó. Matthías féllst á að veita 30 milljónum króna til sjóðsins. Þetta var reyndar ekki há upphæð en mestu máli skipti að eitthvert byrjunarframlag fengist og að sjóðurinn kæmist á fjárlög. Þar með var hann “kominn á blað” eins og stundum er sagt og eftirleikurinn væntanlega auðveldari að knýja á um raunsærri fjárveitingar er fram liðu stundir.”
Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrum ráðherra fæddist á Brekku í Mjóafirði 20. sept. 1914. Hann lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni 1935 og gerðist síðan bóndi á Brekku árið eftir. Vilhjálmur var kennari við barnaskólann í Mjóafirði 1936-1947 og skólastjóri 1956-1967. Þá sat hann fyrst á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn 1949-1956 og svo aftur frá 1967 til 1979. Vilhjálmur var menntamálaráðherra frá 1974 til 1978.
1975 lagði Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins sem þá var í stjórnarandstöðu, fram frumvarp um að stofna skyldi sérstakan kvikmyndasjóð og kvikmyndasafn. Sjóður þessi skyldi styrkja íslenska kvikmyndagerð með beinum fjárstyrkjum, lánum ábyrgðum og verðlaunum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en var vísað til ríkisstjórnarinnar sem átti að endursemja það og leggja fram á ný hið fyrsta. Það var þó ekki fyrr en í apríl 1978 að stjórnarfrumvarp um stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands var lagt fram. Flutningsmaður var Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra.
Í aprílmánuði árið 1979 úthlutaði nýstofnaður Kvikmyndasjóður Íslands sínum fyrstu styrkjum. Þó sjóðurinn hefði ekki úr miklu að moða sá hann sér fært að veita níu umsækjendum styrk, þar af þremur leiknum kvikmyndum í fullri lengd. Hæsti styrkurinn, níu milljónir, rann til Ísfilm og framleiðslu þess á myndinni Land og synir í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar. Barna- og fjölskyldumyndin Veiðiferðin í leikstjórn Andrésar Indriðasonar hlaut fimm milljónir í styrk sem og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson. Sex aðrar myndir fengu styrki sem voru á bilinu 1-3 milljónir hver. Það sætti nýmælum að hvorki meira né minna en þrjár kvikmyndir í fullri lengd voru í framleiðslu á sama tíma. Hið svokallaða “íslenska kvikmyndavor” var hafið.