Search
Close this search box.

EDDAN

2003

Knútur Hallsson

Knútur Hallsson (1923-2010) hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2003 fyrir einstakt framlag sitt til kvikmyndamála á Íslandi.

Knútur vann lengst af í Menntamálaráðuneytinu og lauk ferli sínum þar sem ráðuneytisstjóri. Hann lét öll mál ráðuneytisins sig skipta en ekki síst menningarmál og þá sérstaklega höfundarréttarmál og kvikmyndamál. Knútur vann ötullega að framgangi kvikmyndagerðar á Íslandi og er það ekki síst honum að þakka að Kvikmyndasjóður og Kvikmyndasafn komust á laggirnar. Var hann vakinn og sofinn í því að koma íslenskri kvikmyndagerð á framfæri bæði hérlendis og erlendis. Knútur fóstraði íslenska kvikmyndasjóðinn fyrstu árin og sat meðal annars í úthlutunarnefndum.  

Þann 8. maí 1978 samþykkti Alþingi lög um Kvikmyndasjóð og fór fyrsta úthlutun úr honum fram árið 1979. Málið átti sér nokkurn aðdraganda. Í landinu var orðinn til hópur manna sem stundað höfðu nám í kvikmyndagerð og/eða unnið leikið efni fyrir sjónvarp. Þessir aðilar, ásamt ýmsum öðrum sem áhuga höfðu á kvikmyndinni sem listformi, höfðu þrýst á ráðamenn um aðkomu ríkisins að fjármögnun bíómynda. Í þessum efnum nutu þeir stuðnings Knúts Hallssonar, þáverandi deildarstjóra menningarmála í Menntamálaráðuneytinu (síðar ráðuneytisstjóra). Í samtalsbók Árna Þórarinssonar við Hrafn Gunnlaugsson, “Krummi”, lýsir Hrafn ferlinu á þennan hátt: 

“Tilkoma Kvikmyndasjóðs er Knúti Hallssyni öðrum fremur að þakka. Hann hafði árum saman starfað að listum og menningarmálum í menntamálaráðuneytinu og var með brennandi áhuga á kvikmyndum […]. Knútur stýrði stofnun Kvikmyndasjóðs bak við tjöldin og við rérum í ráðamönnum, Thor Vilhjálmsson, Baldvin Tryggvason, Birgir Sigurðsson og Indriði G. Þorsteinsson. Albert Guðmundsson var líka drjúgur stuðningsmaður.” 

Knútur viðurkennir að “hafa verið viðstaddur getnað og fæðingu krógans” eins og hann orðar það svo skemmtilega í stuttu spjalli við tímaritið Land og syni, “en ég tel mig þó ekki vera einan föður að, þar komu fleiri til. En í minni föðurlegu umsjá var blessað afkvæmið um ellefu ára skeið.” 

Þegar hann er beðinn um að rifja upp hvernig sjóðurinn varð að veruleika segir hann: 

“Það er skemmtilegur paradox að ráðherrann sem ýtti Kvikmyndasjóði úr vör hafði aldrei í bíó komið – að því er hann sagði mér sjálfur. Þetta var öðlingurinn Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði. Ekki skiptir máli hvort þetta er bókstaflega satt en Vilhjálmur var laundrjúgur húmoristi og vís til að skrökva ýmsu uppá sig til að krydda frásögnina. Hann þekkti auðvitað líka hina frægu setningu Jónasar frá Hriflu, þegar hann var að skrökva sem mest: “Þetta hefði getað verið satt”. Ég legg því til að litið verði á þessa sögu sem heilagan sannleik í íslenskri kvikmyndasögu.” 

Knútur lýsir því ennfremur þegar þeir Vilhjálmur skunduðu á fund Matthíasar Mathiesen, sem þá var fjármálaráðherra, til að reyna að kría út úr honum fjárveitingu sem mætti verða tannfé hins nýja sjóðs. 

“Matthías tók glaðhlakkalega á móti okkur og ég býst við að við Vilhjálmur höfum notið þess að Hafnfirðingnum hafi runnið blóðið til skyldunnar, en á sokkabandsárum minnar kynslóðar og Matthíasar var Hafnarfjörður einskonar Mekka kvikmyndanna á íslandi þegar þar voru sýndar allar helstu myndir frá gullaldartímabili evrópskrar kvikmyndagerðar. Þá var oft fullt í Hafnarfjarðarstrætó. Matthías féllst á að veita 30 milljónum króna til sjóðsins. Þetta var reyndar ekki há upphæð en mestu máli skipti að eitthvert byrjunarframlag fengist og að sjóðurinn kæmist á fjárlög. Þar með var hann “kominn á blað” eins og stundum er sagt og eftirleikurinn væntanlega auðveldari að knýja á um raunsærri fjárveitingar er fram liðu stundir.”