Dagsetning

Vonarstræti með 12 Eddur

Kvikmyndin Vonarstræti sópaði til sín verðlaunum á Eddunni 2015 sem haldin var laugardagskvöldið 21. febrúar og fékk alls tólf verðlaun, meðal annars sem kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, handrit, kvikmyndatöku og klippingu.

Báðir aðalleikararnir í Vonarstræti, þau Þorsteinn Bachmann og Hera Hilmarsdóttir hlutu Eddustyttuna. Edduna fyrir aukahlutverk fengu þau Helgi Björnsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni París norðursins.

Hraunið var valið leikið sjónvarpsefni ársins og titillinn sjónvarpsmaður ársins kom í hlut Brynju Þorgeirsdóttur. Stuttmyndin Hjónabandssæla og heimildamyndin Höggið unnu Edduna hvor í sínum flokki.

Sjónvarpsmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Ómar Ragnarsson hlaut Heiðursverðlaun Eddunnar 2015 fyrir framlag sitt til sjónvarpssögu Íslendinga og var bókstaflega dreginn inn á sviðið af heiðurslöggunum Geir og Grana.

Kynnir Eddunnar var leikkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir sem brá sér meðal annars í gervi allra karlleikaranna í tilnefndum kvikmyndum og fór á kostum sem Móri í Vonarstræti.

Annars komu óvenju margar Eddur við sögu þetta kvöld, því auk Eddu Bjargar, stigu á svið Edda Andrésdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Edda Þórarinsdóttir, Edda Hermannsdóttir og Edda Sif Pálsdóttir.

Á hátíðinni var tilkynnt um vinningshafann í kosningu almennings um besta íslenska kvikmyndalagið. Lagið Sódóma með Sálinni hafði vinninginn og var flutt á óvenjulegan og eftirminnilegan hátt af Sigríði Thorlacius og Ómari Guðjónssyni.

AÐRAR FRÉTTIR