Search
Close this search box.

Dagsetning

Tilkynning varðandi flokkinn Handrit ársins

Stjórn ÍKSA hefur falið framkvæmdastjóra að óska eftir að valnefnd handrita hefji störf að nýju og meti hvort handrit Verbúðarinnar hljóti tilnefningu í flokknum Handrit ársins. Ákvörðun þessi var tekin í gær, 5. mars 2023 og fær valnefnd frest til hádegis þriðjudagsins 7. mars næstkomandi til að skila niðurstöðu. Verði niðurstaða valnefndar sú að Verbúð hljóti tilnefningu verður henni bætt við þær fimm tilnefningar sem þegar liggja fyrir. Að öðrum kosti verða tilnefningar óbreyttar. Kosning meðlima ÍKSA hefst miðvikudaginn 8. mars.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir málavöxtum sem leiddu til þessarar ákvörðunar.

Tilnefningar til Eddunnar 2023 voru kynntar 3. mars síðastliðinn. Síðar sama dag varð stjórn ÍKSA þess áskynja að innsending í flokkinn Handrit ársins hafði ekki borist af hálfu aðstandenda Verbúðarinnar innan tilskilins skilafrests, 24. janúar síðastliðinn. Innsendingar verksins í aðra flokka höfðu borist innan þessa skilafrests.Jafnframt varð stjórn ljóst þann 3. mars að aðstandendur Verbúðarinnar töldu sig í góðri trú hafa sent inn umsókn og að verkið kæmi til greina í flokkinn Handrit ársins.

Eftir að stjórn hafði gert sér grein fyrir þessari stöðu var farið í að skoða alla verkferla málsins. Eftir ítarlega skoðun á gögnum og samskiptum er ljóst að misskilningur milli framkvæmdastjóra og framleiðanda í samskiptum er varða innsendingarkerfið olli því að framleiðandi taldi umsókn um handrit ársins afgreidda þegar raunin var að umsóknin hafði ekki verið fullkláruð inni í innsendingarkerfinu.

Nú ber að taka það fram að það er ekki hlutverk framkvæmdastjóra eða stjórnar að staðreyna hvort aðstandendur verka hafi sótt um einstaka flokka fagverðlauna í innsendingarferlinu. Þetta er ákvörðun og á ábyrgð þeirra sem senda inn verk. Hlutverk stjórnar varðandi innsendingar eftir að fresti lýkur er fyrst og fremst að skoða hvort verkefni uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í starfsreglum.

Stjórn ÍKSA harmar mjög að þetta mál hafi komið upp. Það er algjört lykilatriði að allir lúti sömu reglum, þar á meðal um skilafrest, og að þeim sé ekki breytt meðan ferli innsendinga, tilnefninga og kosninga stendur yfir. Í ljósi þess að hér kom upp misskilningur milli aðila telur stjórn ÍKSA rétt að heimila valnefnd að fjalla um handrit Verbúðarinnar. Í þeirri rýnivinnu sem nú stendur yfir varðandi tilhögun Edduverðlaunanna, verða gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að uppákomur sem þessar eigi sér stað síðar.

Að lokum er rétt að taka fram að stjórn ÍKSA hefur engin afskipti af störfum valnefnda. Hlutverk stjórnar ÍKSA er að velja fólk í valnefndir út frá þekkingu og hæfi viðkomandi einstaklinga. Í framhaldi sér framkvæmdastjóri um samskipti við valnefndir. Sú regla hefur verið viðhöfð að eigi meðlimur stjórnar verk í innsendingu víkur hann af fundi þegar valnefndir þeirra flokka sem verkið kemur til greina í eru valdar.

Fyrir hönd stjórn ÍKSA
Hlín Jóhannesdóttir, formaður

AÐRAR FRÉTTIR