Kvikmyndin Snerting í leikstjórn Baltasars Kormáks verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2025. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, kvikmyndagagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:
,,Snerting er í senn epísk og afskaplega mannleg saga um tilfinningar, ást, eftirsjá og litlu augnablikin í lífi hvers manns sem öðlast merkingu þegar horft er til baka.
Í Snertingu er unnið með klassísk þemu og frásagnarstef á nýstárlegan og listrænan máta. Mögulega er hægt að endurheimta ástina sem rann aðalpersónunum úr greipum áratugum fyrr, en spurningin hvað það þýðir og hvað hefur glatast liggur myndinni til grundvallar. Á sama tíma og unnið er með þessi klassísku stef eru þau framsett með óvenjulegri sjónrænni fágun og næmni, og hinn þverþjóðlegi söguheimur er kallaður fram ekki sem bakgrunnur heldur burðarstólpi í sjálfri ástarsögunni; inn í viðkynningu Miko og Kristófers eru þræddir sögulegir og menningarlegir þættir sem bæði sameina og sundra. Tengingarnar milli parsins og ástin sjálf birtast í lýsingu og sjónarhorni, birtunni sem umlykur líkama þeirra og hvernig þeir samtvinnast og snertast, í rýmisvenslunum í eldhúsinu alveg eins og því sem er sagt.
Snerting er hrífandi saga um mennskuna, menningarheima sem skarast á og leitina að svörum við ósvöruðum spurningum. Atvik og örlög heillar mannsævi fléttuð saman í órofa heild.”
97. Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin sunnudaginn 2. mars 2025. Ferli kosninga Akademíunnar er þannig að stuttlistinn svokallaði verður kynntur 17. desember næstkomandi, en tilnefningar til verðlaunanna verða opinberaðar 17. janúar 2025.
Snerting segir frá Kristófer, sjötugum ekkli, sem komin er á eftirlaun. Hann leggur upp í ferðalag, þegar heimsfaraldurinn er skollinn á, í von um að finna skýringu á því hvað orðið hafi um kærustu hans sem hvarf sporlaust frá London 50 árum áður. För hans leiðir hann yfir hálfan hnöttinn og alla leið til Japans.
Kvikmyndin er byggð á skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar sem kom út árið 2021 og skrifar hann handritið ásamt Baltasari Kormáki sem leikstýrir myndinni. Aðalhlutverkið er í höndum Egils Ólafssonar en auk hans fara þau Pálmi Kormákur, Sigurður Ingvarsson, María Ellingsen, Theodór Júlíusson, Starkaður Pétursson og Benedikt Erlingsson með hlutverk í myndinni. Japönsku leikararnir Koki, Yoko Narahashi, Masatoshi Nakamura, Meg Kubota og Eiji Mihara fara einnig með hlutverk í Snertingu.
Myndin er framleidd af Baltasar og Agnesi Johansen fyrir RVK Studios í samvinnu við Mike Goodridge hjá Good Chaos í Bretlandi. Dreifingaraðili myndarinnar á heimsvísu er Universal en dótturfyrirtæki þess, Focus Features dreifir Snertingu í Bandaríkjunum og var hún frumsýnd vestanhafs um miðjan júlí.
Frumsýning Snertingar var í íslenskum kvikmyndahúsum þann 29. maí síðastliðinn. Hún hefur þegar verið frumsýnd í kvikmyndahúsum í Þýskalandi, Ástralíu, Bretlandi, Írlandi, Singapúr og Ítalíu ásamt því að vera sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim. Hún verður frumsýnd enn víðar seinna á þessu ári og byrjun árs 2025.
Snerting hefur verið kölluð „meistaraverk“ og „ein besta mynd ársins “ í Bandaríkjunum. Sumir gagnrýnendur hafa líka talað um að hún sé besta mynd Baltasars Kormáks. Leikarar myndarinnar, ekki síst Egill Ólafsson, hafa fengið afbragðsdóma og það sama má segja um aðra sem koma gerð myndarinnar.
Þá er Snerting tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 sem verða opinberuð 22. október næstkomandi á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.