Search
Close this search box.

Dagsetning

ÍKSA kallar eftir innsendingum vegna Óskarsverðlaunanna 2025

Nú líður að því að ákvarðað verður um framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2025. En árlega sendir ÍKSA (Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían) framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokknum ,,Besta alþjóðlega myndin”. Opnað hefur verið fyrir innsendingar til og með 12. Ágúst 2024.

Gjaldgengar eru allar kvikmyndir, 40 mínútur eða lengri, sem frumsýndar eru á Íslandi á bilinu 1. nóvember 2023 og 30. september 2024. Skilyrði er að þær hafi verið í almennum bíósýningum að lágmarki 7 daga samfleytt. Nánar um reglurnar hér.

Vakin er athygli á því að senda þarf inn verk sem eiga að koma til greina. Hlekk á innsendingarform er að finna neðst í þessari fréttatilkynningu. Innsendingafrestur er til og með 12. ágúst 2024.

Framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokknum “Besta alþjóðlega myndin” (Best International Feature Film) verður valið af dómnefnd sem skipuð er níu aðilum úr stjórnum fagfélaga í kvikmyndaiðnaðinum auk fulltrúa Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, kvikmyndahúsa á Íslandi og kvikmyndagagnrýnenda.

Dómnefndarfyrirkomulag

Stjórn ÍKSA skipar dómnefnd sem velur það kvikmyndaverk sem sent verður í forval Óskarsverðlaunanna. Dómnefndin er skipuð fulltrúum fagfélaga í kvikmyndaiðnaðinum auk fulltrúa frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, félagi kvikmyndahúsaeigenda og kvikmyndagagnrýnendum. 

Allir fulltrúar dómnefndar verða að vera íslenskir ríkisborgarar og félagsmenn ÍKSA. Fulltrúar mega ekki hafa tengingu við innsend og gjaldgeng verk. Fulltrúar mega ekki sitja lengur en í 6 ár samfellt en þurfa þá að taka sér tveggja ára hlé.

  • Samtök kvikmyndaleikstjóra
  • Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda
  • Félag leikskálda og handritshöfunda
  • Félag kvikmyndagerðarmanna
  • Kvikmyndagagnrýnandi
  • Kvikmyndamiðstöð Íslands
  • Félag íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum
  • Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra
  • Fulltrúi Kvikmyndahúss á Íslandi

Dómnefndin er skipuð við upphaf hvers árs af stjórn ÍKSA. Yfir árið reynir dómnefnd eftir bestu getu að sjá allar gjaldgengar myndir í kvikmyndahúsi.

Í júlí kallar ÍKSA eftir innsendingum með skilafrest í ágúst.

Þegar innsendingarfresturinn er liðinn fær dómnefndin lista yfir myndirnar ásamt tilheyrandi tenglum og lykilorðum til að horfa á eða rifja upp. Dómnefnd kemur saman eftir að allir hafa náð að sjá öll kvikmyndaverkin, en fyrsti fundur felur í sér opnar umræður og að lokum velur hver dómnefndarmeðlimur þær tvær myndir sem viðkomandi telur standa upp úr.

Á seinni fundinum ræðir dómnefndin allar myndirnar sem lentu efst í vali dómnefndarmeðlima, með það að markmiði að ná samstöðu um þau tvö verk sem skara fram úr. Þá fer fram atkvæðagreiðsla dómnefndar þar sem valin kvikmynd þarf að lágmarki 51% atkvæða.

Þetta ferli tryggir vandlega íhugun og mat á hverri gjaldgengri mynd og lýkur með því að dómnefndin velur endanlegt framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna.

Staðfesting þátttöku er jafnframt samþykki framleiðanda þeirrar myndar sem verður valin sem framlag Íslands, á að standa skil á öllum gögnum sem þarf að senda til Óskarsverðlauna Akademíunnar fyrir 2. október 2024. 

Tilkynnt verður um framlag Íslands til Óskarsverðlauna í byrjun september.

Innsendingarformið er að finna á heimasíðu Eddunnar.

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Ingibjörgu Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra ÍKSA á eddan@eddan.is.

AÐRAR FRÉTTIR