Valnefndir Edduverðlauna

Edduverðlaunin eru fagverðlaun. Í því felst að fagfólk í greininni, meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, veitir verðlaunin til þeirra sem skilað hafa framúrskarandi góðu verki á síðastliðnu ári.

Starf valnefnda er grundvöllur þess að verðlaunin standi undir nafni sem fagverðlaun. Til þess starfs er valið fólk sem hefur faglegar forsendur og metnað til að geta metið verkin af þekkingu og sanngirni.

Ferlið gengur svona fyrir sig: Framleiðendur ákveða hvaða efni þeir senda inn í Edduna ár hvert. Valnefndirnar fara yfir allt innsent efni og velja þau verk sem tilnefnd eru í hverjum flokki. Að lokum kjósa svo meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á milli tilnefndra verka um það hver hlýtur Edduna í hverjum flokki fyrir sig. Í þeirri kosningu gilda atkvæði valnefnda 50% á móti atkvæðum ÍKSA meðlima.

Almennt um valnefndirnar:

Valnefndir, skipaðar af stjórn ÍKSA, skoða allt innsent efni og velja þau verk sem eru tilnefnd til Edduverðlaunanna. Valnefndirnar eru fjórar, en valnefnd fagverðlauna skiptist niður í sex minni nefndir:

 1. VALNEFND UM LEIKIÐ EFNI. Skoðar eftirfarandi flokka:
  Barna- og unglingaefni ársins; Kvikmynd ársins; Leikari ársins í aðalhlutverki; Leikari ársins í aukahlutverki; Leikið sjónvarpsefni ársins; Leikkona ársins í aðalhlutverki; Leikkona ársins í aukahlutverki og Stuttmynd ársins
 2.  VALNEFND UM SJÓNVARPSEFNI. Skoðar eftirfarandi flokka:
  Frétta eða viðtalsþáttur ársins; Menningarþáttur ársins; Mannlífsþáttur ársins, Skemmtiþáttur ársins og Sjónvarpsmaður ársins.
 3. VALNEFND UM HEIMILDAMYNDIR. Skoðar einn flokk:
  Heimildamynd ársins
 4. VALNEFND FAGVERÐLAUNA. Skoðar eftirfarandi flokka:
  Brellur ársins; Búningar ársins; Gervi ársins; Handrit ársins; Hljóð ársins; Klipping ársins; Kvikmyndataka ársins; Leikmynd ársins; Leikstjóri ársins og Tónlist ársins.

  1. Búningar og gervi:
   Búningar ársins
   Gervi ársins
  2. Brellur og leikmynd:
   Brellur ársins
   Leikmynd ársins
  3. Klipping og kvikmyndataka:
   Klipping ársins
   Kvikmyndataka ársins
  4. Handrit og Leikstjórn:
   Handrit ársins
   Leikstjóri ársins
  5. Hljóð og tónlist:
   Hljóð ársins
   Tónlist ársins.
  6. Upptöku- eða Útsendingarstjórn:
   Upptöku- eða Útsendingarstjórn

Minnst sjö aðilar skulu starfa í hverri valnefnd fyrir leikið efni og sjónvarpsefni. Allt að fimm aðilar skulu starfa í hverri valnefnd fyrir heimildarmyndir. Þrír aðilar skulu starfa í hverri fagverðlaunanefnd. Stjórn ÍKSA mun gæta þess að hafa kynjahlutföll sem jöfnust. Allir valnefndafulltrúar skulu vera meðlimir ÍKSA og leitast er eftir fulltrúum sem hafa sérþekkingu hvað varðar menntun og/eða starfa á sviði kvikmynda og sjónvarps.

Skilyrði þess að starfa í valnefnd er að viðkomandi sé ekki með innsent verk í þeim flokki sem nefndin er að skoða, né má einstaklingurinn hafa persónuleg tengsl við þá sem eru tilnefndir. Sérhver valnefndarmaður skal staðfesta með sannarlegum hætti að viðkomandi uppfylli skilyrði til að starfa í valnefnd samkvæmt framansögðu og að hann muni starfa eftir vinnureglum ÍKSA.

Nöfn allra valnefndarmanna skulu birt á vef ÍKSA (www.eddan.is) eftir að Eddan er um garð gengin, án þess þó að tiltaka hver sat í hvaða valnefnd.

Vinnureglur valnefnda:

1. Verk skal velja út frá tveimur meginforsendum:

 • Sköpun. Hér er átt við það skapandi framlag sem í verkinu felst, efnistök og listræn gæði.
 • Fagmennsku. Hér er átt við fagleg vinnubrögð, tæknilega úrvinnslu og samband áferðar og efnis.

Markmið valnefndar er að leiða fram þau verk sem sköruðu fram úr í hverjum flokki. Í sumum tilfellum er verið að bera saman ólík verk. Þá ber að horfa á hvert verk fyrir sig, skoða forsendur þess (hvað er verið að reyna að gera) og meta hvernig hefur til tekist miðað við þær forsendur.

2. Starf nefndarinnar fer þannig fram að nefndarmenn fá í lykilorð að vefþjóni með aðgangi að því efni sem til greina kemur í viðkomandi flokki. Efnið er skoðað í gegnum aðgangsstýrt vefsvæði. Gera má ráð fyrir að nýjustu kvikmyndirnar geti nefndarmenn jafnvel skoðað í kvikmyndahúsi.

3. Þegar nefndarmenn hafa skoðað efnið, gefa þeir fimm bestu verkum eða einstaklingum í hverjum flokki einkunn og raða niðurstöðunni inn í þar til gert Excel skjal/kjörseðil. Fremsta (og besta) verkið fær 10, það næst fremsta 8, þriðja 6, fjórða 4 og fimmta 2.

Mikilvægt er að raða hvorki fleiri né færri en fimm verkum/nöfnum upp í röð en kjörstjórn getur ekki tekið við kjörseðlum valnefndarmanna nema að uppfylltu þessu skilyrði.

Kjörseðillinn er að því loknu sendur í tölvupósti til formanns kjörstjórnar, samkvæmt nánari leiðbeiningum. Fyllsta trúnaðar er gætt um atkvæði allra valnefndarmanna og atkvæði þeirra fara aldrei út fyrir veggi kjörstjórnar.

4. Valnefndum ber að skoða og dæma öll þau verk sem lögð eru fram í viðkomandi flokki. Stjórn ÍKSA hefur áður farið yfir allar innsendingar og tekið út þau verk sem ekki eiga heima í keppninni. Valnefndum er óheimilt að ákveða að einhver tiltekin verk eða tegundir verka komi ekki til álita.

5. Mikilvægt er að valnefndarmenn umgangist þau gögn sem þeir fá afhent af trúnaði. Um er að ræða kvikmyndaefni þar sem hætt er við að höfundarétti sé stolið. Því má alls ekki láta neinum öðrum í té það efni sem nefndarmenn fá aðgang að. Þess ber að geta að aðgangur að vefþjónum er skráður og kjörnefnd getur flett upp aðgangslistum.

6. Valnefndarmenn eru bundnir trúnaði um allt starf nefndarinnar bæði á meðan á vinnu hennar stendur sem og síðar. Ef upp koma álitamál eða spurningar skulu dómnefndarmenn hafa samband við stjórn ÍKSA sem sker úr um öll vafaatriði.

………

Valnefndarmenn Eddunnar 2018

Anna G. Magnúsdóttir
Arnar Benjamin Kristjánsson
Árni Jónsson
Ása Baldursdóttir
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásta Briem
Birgir Þór Birgisson
Björn Helgason
Elín Sveinsdóttir
Eva Vala Guðjónsdóttir
Felix Bergsson
Friðrik Erlingsson
G. Pétur Matthíasson
Gísli Berg
Gunnar Björn Guðmundsson
Hanna Björk Valsdóttir
Hrönn Sveinsdóttir
Jón Stefánsson
Júlía Embla Katrínardóttir
Kristín Andrea Þórðardóttir
Margrét Einarsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir
Ósk Gunnlaugsdóttir
Sif Ásmundsdóttir
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Styrmir Sigurðsson
Svanhildur Hólm Valsdóttir
Sævar Guðmundsson
Tinna Hrönn Proppé
Þórir S. Sigurjónsson