Eddan 2014

Kvikmyndin Hross í oss var kosin kvikmynd ársins á Edduverðlaunahátíðinni sem haldin var fyrir fullum sal og í beinni útsendingu í Silfurbergi í Hörpunni 22. febrúar. Hross í oss hlaut sex Eddur á hátíðinni, meðal annars fyrir leikstjórn, handrit og kvikmyndatöku. Kvikmyndin Málmhaus sópaði til sín verðlaunum og hlaut alls átta verðlaun, meðal annars fyrir klippingu, hljóð og tónlist.

Ingvar E. Sigurðsson skoraði tvennu í leikaraverðlaununum og hlaut Edduna fyrir leik í aðalhlutverki í Hross í oss og aukahlutverki í Málmhaus. Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir í Málmhaus var valin leikkona ársins í aðalhlutverki og Halldóra Geirharðsdóttir, einnig í Málmhaus, leikkona í aukahlutverki.

Ástríður 2 var valið leikið sjónvarpsefni ársins og titilinn sjónvarpsmaður ársins kom í hlut Boga Ágústssonar. Stuttmyndin Hvalfjörður og heimildarmyndin Hvellur unnu Edduna hvor í sínum flokki. Þá tóku áhorfendur Eddunnar þátt í símakosningu meðan á útsendingunni stóð og völdu sína uppáhaldssetningu úr íslenskri kvikmynd og varð setningin; Inn, út, inn, inn, út úr kvikmyndinni Með allt á hreinu, fyrir valinu.

Heiðursverðlaun ársins komu í hlut Sigríðar Margrétar Vigfúsdóttur, Sörmu, fyrir yfir tuttugu ára þrotlaust starf í þágu íslenskra kvikmynda á erlendri grund. Sarma er konan á bak við tjöldin, konan sem hefur í áraraðir verið potturinn og pannan í öllum styrkumsóknum íslenskra kvikmynda í stærstu kvikmyndasjóðum Evrópu. Þar hefur Sarma gegnt burðarhlutverki og það er að stórum hluta henni að þakka að íslenskar kvikmyndir hafa á síðustu tveimur áratugum náð þeim ótrúlega árangri að fá úthlutað um tveimur milljörðum króna, þar af alls 175 milljónum króna bara á síðasta ári.

Kynnir Eddunnar, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, fór á kostum og spilaði meðal annars á þrjú hljóðfæri; gítar, flygil og trommur!

Sjá þau verk og einstaklinga sem unnu til verðlauna hér.